Fótbolti

Freistandi fyrir Messi að reyna að taka metið af Ronaldo í lokaumferðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi skoraði bæði mörk Barcelona í 2-0 sigri á Celtic í Meistaradeildinni í gærkvöldi en sigurinn þýðir að Barcelona er búið að tryggja sér sigur í sínum riðli.

Messi hefur þar með skorað 9 mörk í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í ár en það hefur bara gerst þrisvar áður í sögu keppninnar.

Messi vantar enn tvö mörk til að jafna met Cristiano Ronaldo frá því í fyrra þegar hann skoraði 11 mörk fyrir Real Madrid í riðlakeppninni.

Cristiano átti metið áður en hann skoraði 9 mörk í riðlakeppninni 2013-14 og Luiz Adriano náði síðan að jafna það tímabilið á eftir.

Nú er stóra spurningin hvort að Lionel Messi reyni að bæta metið í lokaumferðinni en Barca er þá á heimavelli á móti þýska liðinu Borussia Mönchengladbach. Barcelona vann fyrri leikinn 2-1 í Þýskalandi en Messi spilaði ekki vegna meiðsla.

Barcelona er þegar búið að tryggja sér sigur í riðlinum og því freistandi að hvíla Messi en hann er á heimavelli og á möguleika á að bæta metið.  Það sem gerir þetta enn meira spennandi fyrir Argentínumanninn er að hann getur tekið metið af Ronaldo.

Messi hefur því aðeins þurft 4 leiki til þess að skora þessi 9 mörk. Hann skoraði þrennu í fyrri leiknum á móti Celtic, þrennu á móti Manchester City á heimavelli og eitt mark á móti City á Ethiad. Messi bætti síðan við tveimur mörkum á Celtic Park í gær.

Messi varð í gær einnig fyrsti leikmaðurinn til að skora hundrað mörk fyrir eitt félag í alþjóðlegum mótum en hann hefur skorað 94 mörk fyrir Barcelona í Meistaradeildinni, 3 mörk í ofurbikar UEFA og fimm mörk í heimsmeistarakeppni félagsliða.

Messi hefur ennfremur skorað 500 mörk fyrir Barcelona í bæði opinberum leikjum sem og æfingaleikjum. Hann þurfti bara 593 leiki til að ná því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×