Innlent

Ísland stefnir Iceland vegna vörumerkisins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Verslun Iceland.
Verslun Iceland. Vísir/AFP

Utanríkisráðuneytið hefur gripið til lagalegra aðgerða gegn bresku verslunarkeðjunni Iceland Foods. Segir ráðuneytið verslunarkeðjuna hafa um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu við markaðssetningu í Evrópu á vörum sínum og þjónustu.



Eins og Fréttablaðið greindi fyrst frá hinn 21. september síðastliðinn hafa Íslandsstofa og Samtök atvinnulífsins undir­búið málaferlin með ráðuneytinu.



Breska fyrirtækið hefur einkarétt á orðmerkinu ICELAND í öllum löndum Evrópusambandsins, samkvæmt ákvörðun þeirrar stofnunar innan ESB sem annast vörumerkjaskráningar (EUIPO). Íslensk stjórnvöld krefjast þess að einkaleyfið verði ógilt, enda sé það of víðtækt og komi í veg fyrir að íslenskir aðilar geti vísað til landfræðilegs uppruna síns.



Utanríkisráðuneytið segir verslunarkeðjuna hafa ítrekað kvartað til evrópskra yfirvalda yfir íslenskum aðilum sem nota orðið ICELAND sem hluta af vörumerki sínu. Aðgerðir verslunarkeðjunnar hafi meðal annars bitnað á markaðsátakinu Inspired by Iceland, en undir þeim hatti hefur Ísland verið markaðssett sem spennandi áfangastaður fyrir ferðamenn. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×