Íslenski boltinn

Heimir: Held að FH geti ekki fengið Gary Martin á viðráðanlegu verði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Guðjónsson er að leita að frekari styrk.
Heimir Guðjónsson er að leita að frekari styrk. vísir/anton brink
Guðmundur Karl Guðmundsson, sem var fyrirliði Fjölnis í Pepsi-deild karla á síðustu leiktíð, samdi í dag við Íslandsmeistara FH í dag til tveggja ára. Hann er annar útispilarinn sem meistararnir fá til sín á eftir Veigari Páli Gunnarssyni.

„Mér hefur alltaf fundist hann góður leikmaður. Hann getur leyst margar stöður, er með góðar fyrirgjafir og góður skotmaður bæði með hægri og vinstri. Við teljum að hann geti styrkt okkur, það er ekki spurning,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, við Vísi eftir undirskriftina í dag.

Sjá einnig: Guðmundur Karl: Skrýtið að fara frá Fjölni



Guðmundur Karl er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað á miðju, í bakverði og úti á kanti, en hver verður hans staða hjá Hafnafjarðarliðinu?

„Það á eftir að koma í ljós en auðvitað höfum við það bakvið eyrað að það er gott að vera með leikmenn í liðinu sem geta leyst fleiri en eina stöðu. Við byrjum að æfa á morgun og þá fá menn tækifæri til að sanna sig,“ sagði Heimir.

Þetta er annað árið í röð sem FH fær fyrirliða Fjölnis til sín. Þarf Heimir ekki að fylgjast vel með því hvern Ágúst Gylfason lætur næst hafa bandið í Grafarvoginum? „Þetta er góð spurning. Ég þarf að fylgjast vel með því næsta sumar,“ sagði Heimir og brosti.

FH er aðeins búið að fá til sín tvo útileikmenn; Veigar Pál og Guðmund Karl, og markvörðinn Vigni Jóhannesson sem verður á bekknum í baráttu við Gunnar Nielsen. Er eitthvað meira á teikniborðinu hjá FH?

„Við erum alltaf að vinna í einhverju. Við höfum ekki misst af neinu sem að við vildum fá. Við erum alltaf að leita og við ætlum að styrkja okkur, það er alveg klárt,“ sagði Heimir.

Gary Martin, framherji Víkings, hefur verið sterklega orðaður við FH undanfarnar vikur en ólíklegt þykir að hann verði áfram í Fossvoginum. Í viðtali í Akraborginni sagði Gary sjálfur að það væri erfitt fyrir hann að hafna Íslandsmeisturunum.

„Mér finnst Gary Martin mjög góður leikmaður en hann er með samning við Víking. Ef FH ætlar að fá Gary Martin þá held ég að sú upphæð yrði ekki viðráðanleg fyrir Fimleikafélagið,“ sagði Heimir Guðjónsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×