Íslenski boltinn

Valur berst við KR um Morten Beck

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Morten Beck í baráttunni gegn Sigurði Agli Lárussyni, leikmanni Vals, í sumar.
Morten Beck í baráttunni gegn Sigurði Agli Lárussyni, leikmanni Vals, í sumar. vísir/hanna
Pepsi-deildarlið KR og Vals eiga í baráttu um undirskrift danska bakvarðarins Mortens Beck sem spilaði með KR á síðustu leiktíð, samkvæmt heimildum Vísis.

Beck var besti leikmaður KR í sumar en hann spilaði alla 22 leikina og var eftir tímabilið kjörinn leikmaður ársins af samherjum sínum á lokahófi liðsins.

Þessi 22 ára gamli hægri bakvörður gerði eins árs samning við KR í byrjun árs eftir að heilla þáverandi þjálfara liðsins, Bjarna Guðjónsson, í æfingaferð í Bandaríkjunum. Hann varð laus allra mála 30. október þegar samningur hans rann út. Beck fór á reynslu til Sarpsborg í Noregi eftir tímabilið en er án liðs.

KR vill ólmt halda Dananum í vesturbænum en Valsmenn vilja einnig fá leikmanninn og eru búnir að bjóða honum samning líkt og KR-ingar, samkvæmt heimildum Vísis.

Valsmenn voru með annan Dana, Andreas Albech, í hægri bakverðinum seinni hluta síðustu leiktíðar. Hann varð samningslaus eftir tímabilið og fór líkt og Beck á reynslu hjá Sarpsborg.

Rólegt hefur verið á félagaskiptamarkaðnum hjá báðum Reykjavíkurstórveldunum. KR er búið að fá til sín Arnór Svein Aðalsteinsson frá Breiðabliki en Valur samdi aftur við Sigurð Egil Lárusson og missti svo Kristinn Frey Sigurðsson í atvinnumennsku í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×