Viðskipti innlent

Streymis­þjónustur hafa ekki á­hrif á línu­legt á­horf

Þorgeir Helgason skrifar
Hrefna Lind Heimisdóttir, framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365 miðla.
Hrefna Lind Heimisdóttir, framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365 miðla. vísir/ernir
„Þetta kemur mér í raun og veru ekki á óvart. Þetta eru svipaðar tölur og við erum að sjá til dæmis í Bandaríkjunum en þar er línulegt áhorf enn mjög mikið,“ segir Hrefna Lind Heimisdóttir, framkvæmdastjóri dagskrársviðs hjá 365 miðlum.

Niðurstöður könnunar sem Gallup­ framkvæmdi í októbermánuði eru þær að 87 prósent af öllu sjónvarpsáhorfi eru línulegt áhorf. Sambærileg könnun sem framkvæmd var í desember í fyrra sýnir nánast sömu niðurstöðu en þá voru 85 prósent af sjónvarpsáhorfi línulegt áhorf.

„Það virðist vera að áhorf fólks á streymisveitur sé að bætast við áhorf á línulega dagskrá, fremur en að draga úr áhorfi á hana,“ segir Hrefna.

Um þriðjungur Íslendinga býr á heimili með áskrift hjá Netflix og 7,5 prósent sögðust myndu kaupa áskrift á næstu mánuðum, samkvæmt könnun MMR fyrr á þessu ári. Netflix opnaði nýverið fyrir streymisþjónustu hér á landi ásamt því að Stöð 2 byrjaði með sína eigin streymisþjónustu, Stöð 2 Maraþon Now. Gera má ráð fyrir, vegna aukinna möguleika, að streymisveitur verði enn algengari á íslenskum heimilum í framtíðinni.

„Samkvæmt þessari könnun virðast streymis­þjónustunar hafa mun minni áhrif á línulegt áhorf en menn óttuðust,“ segir Hrefna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×