Fótbolti

Guardiola stýrði Man City til sigurs á gömlu félögunum | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gündogan hefur skorað fjögur mörk í síðustu tveimur leikjum Man City.
Gündogan hefur skorað fjögur mörk í síðustu tveimur leikjum Man City. Vísir/Getty
Manchester City vann gríðarlega mikilvægan sigur á Barcelona, 3-1, þegar liðin mættust í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Börsungar unnu 4-0 stórsigur á lærisveinum Peps Guardiola í síðustu umferð en City-menn sýndu styrk í leiknum í kvöld og unnu góðan sigur.

Ilkay Gündogan skoraði tvívegis fyrir Man City sem lenti undir á 21. mínútu. Lionel Messi rak þá smiðshöggið á frábæra skyndisókn gestanna. Þetta var sjöunda mark Argentínumannsins í Meistaradeildinni í ár.

Gündogan jafnaði metin á 39. mínútu eftir vel útfærða pressu Man City og sendingu Raheem Sterling.

Staðan var 1-1 í hálfleik en eftir sex mínútna leik í seinni hálfleik kom Kevin De Bruyne Man City yfir með skoti beint úr aukaspyrnu.

Andre Gomes var hársbreidd frá því að jafna metin á 65. mínútu en skot hans fór í slána. Níu mínútum síðar skoraði Gündogan svo sitt annað mark eftir magnaða skyndisókn heimamanna og gulltryggði sigur þeirra.

Man City er með sjö stig í 2. sæti riðilsins, tveimur stigum á eftir Barcelona.

Man City 0-1 Barcelona Man City 1-1 Barcelona Man City 2-1 Barcelona Man City 3-1 Barcelona



Fleiri fréttir

Sjá meira


×