Fótbolti

Özil skaut Skyttunum áfram í 16-liða úrslitin | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mesut Özil skoraði fjögur mörk í leikjunum tveimur gegn Ludogorets.
Mesut Özil skoraði fjögur mörk í leikjunum tveimur gegn Ludogorets. Vísir/Getty
Arsenal er komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 2-3 útisigur á Ludogorets í kvöld.

Skytturnar eru með 10 stig á toppi A-riðils, jafnmörg og Paris Saint-Germain en betri markatölu. Bæði lið eru komin áfram og eina spurningin er hvort þeirra vinnur riðilinn.

Arsenal komst í hann krappann í kvöld en náði að landa sigrinum. Mesut Özil skoraði sigurmarkið þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Búlgararnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og eftir stundarfjórðung voru þeir komnir 2-0 yfir. Jonathan Cafu skoraði fyrra markið á 12. mínútu og Claudiu Keserü bætti því seinna við þremur mínútum síðar.

En Arsenal-menn gáfust ekki upp og komu til baka. Granit Xhaka minnkaði muninn með skoti frá vítapunkti eftir sendingu Mesuts Özil á 20. mínútu.

Fjórum mínútum fyrir hálfleik jafnaði Oliver Giroud svo metin þegar hann reis yfir Milan Borjan, markvörð Ludogorets, og skallaði boltann í netið.

David Ospina, markvörður Arsenal, kom sínum mönnum tvisvar til bjargar í seinni hálfleik en Kólumbíumaðurinn hefur staðið fyrir sínu í Meistaradeildinni í vetur.

Á 87. mínútu fékk Özil boltann inn fyrir vörn heimamanna frá Mohamed Elneny, lék á Borjan og varnarmenn Ludogorets og skoraði sitt fjórða mark í Meistaradeildinni og tryggði Arsenal sigurinn.

Ludogorets 1-0 Arsenal Ludogorets 2-0 Arsenal Ludogorets 2-1 Arsenal Ludogorets 2-2 Arsenal Ludogorets 2-3 Arsenal



Fleiri fréttir

Sjá meira


×