Íslenski boltinn

Willum Þór þjálfar KR-liðið næstu tvö árin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Willum Þór Þórsson og Arnar Gunnlaugsson verða með KR næsta sumar.
Willum Þór Þórsson og Arnar Gunnlaugsson verða með KR næsta sumar. Vísir/Vilhelm
KR-ingar staðfestu í dag verst geymda leyndarmál íslenska fótboltans á blaðamannafundi út í KR.  

Willum Þór Þórsson þjálfar KR áfram en hann tók við liðinu af Bjarna Guðjónssyni eftir slaka byrjun og fór með liðið upp um sjö sæti og alla leið í Evrópusæti.

Willum Þór gerir tveggja ára samning við Vesturbæjarfélagið og Arnar Bergmann Gunnlaugsson verður áfram aðstoðarmaður hans.

Willum Þór þjálfaði KR einnig á árunum 2002 til 2004 en liðið varð þá Íslandsmeistari tvö fyrstu tímabil hans með liðið.

Willum Þór hafði síðan þjálfað Val, Keflavík og Leikni auk þess að komast inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn í millitíðinni.

KR-liðið vann 9 af 13 leikjum sínum og tapaði aðeins tveimur eftir að Willum Þór tók við í lok júní. KR vann aðeins 2 af fyrstu 9 leikjum sínum undir stjórn Bjarna Guðjónssonar.

Sumarið 2016 verður þrettánda tímabil Willums Þórs Þórssonar sem þjálfara í efstu deild en hann hefur stýrt alls liðum í 214 leikjum í efstu deild.  Willum Þór hefur stýrt KR-liðinu í 67 af þessum leikjum.

Willum hefur unnið fjóra stóra titla sem þjálfari, þrjá Íslandsmeistaratitla (KR 2002 og 2003, Valur 2007) og bikarmeistaratitil með Val 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×