Íslenski boltinn

Steinþór Freyr til KA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steinþór er þekktur fyrir sín löngu innköst.
Steinþór er þekktur fyrir sín löngu innköst. vísir/afp
Steinþór Freyr Þorsteinsson er á heimleið og hefur skrifað undir tveggja ára samning við KA. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Steinþór, sem er 31 árs, hefur leikið sem lánsmaður með norska liðinu Sandnes Ulf að undanförnu. Hann er samningsbundinn Viking en samningur hans rennur út um áramótin. Þá flyst hann til Akureyrar.

Steinþór er uppalinn Bliki en gekk til liðs við Stjörnuna 2009. Hann lék í eitt og hálft tímabil með Garðabæjarliðinu áður en hann fór til Örgryte í Svíþjóð. Félagið varð gjaldþrota snemma árs 2011 og þá gekk Steinþór í raðir Sandnes Ulf. Þar skoraði hann 13 mörk í 82 deildarleikjum.

Steinþór fór til Viking 2013 þar sem hann skoraði fimm mörk í 49 leiki. Hann var lánaður til Sandnes Ulf fyrir þetta tímabil en hann hefur leikið 22 leiki á tímabilinu og skorað eitt mark.

„En annars leist mér vel á hópinn og metnaðinn sem virðist vera hjá þessu félagi. Ég hef verið í nokkrum liðum sem hafa farið upp um deild og það hefur alltaf verið mjög góður andi og skemmtileg upplifun að vera í svona hópi. Ég vona að tíminn hjá KA verði eins. Af hverju ég er að koma heim er að nokkru leyti fjölskyldan þar sem ég er kominn með 3 börn og það tekur á að vera frá öllum sem maður þekki en líka er þetta kannski flottur tímapunktur fótboltalega séð. Ég hef gríðalega metnað ennþá og er í góðu formi. Fínt að koma heim í góðu standi en ekki þegar maður er útbrunninn og getur varla hreyft sig,“ sagði Steinþór í samtali við heimasíðu KA.

KA vann Inkassodeildina á nýafstöðnu tímabilinu og tryggði sér sæti í Pepsi-deildinni að ári. KA-menn ætla sér stóra hluti á næsta tímabili og hafa verið duglegir á leikmannamarkaðinum.

Í gær samdi liðið við Kristófer Pál Viðarsson og í fyrradag var gengið frá samningum við Ásgeir Sigurgeirsson. Þá hafa Guðmann Þórisson og Aleksandar Trinicic framlengt samninga sína við KA.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×