Fótbolti

Fer úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu ekki fram í Evrópu?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo með Meistaradeildarbikarinn í Mílanó síðasta vor.
Cristiano Ronaldo með Meistaradeildarbikarinn í Mílanó síðasta vor. Vísir/Getty
Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar í fótbolta gæti verið á leiðinni út úr Evrópu ef marka má orð nýja forseta evrópska knattspyrnusambandsins.

Slóveninn Aleksander Ceferin tók við stjórnartaumunum í UEFA á dögunum og hann er strax farinn að hugsa um það að breyta til.

Ceferin er opinn fyrir því að spila úrslitaleik Meistaradeildarinnar í New York í Bandaríkjunum en evrópskur fótbolti er alltaf að verða vinsælli og vinsælli í Norður-Ameríku.

„Þetta er kannski bara hugmynd á þessu stigi en við verðum að ræða þetta,“ sagði Aleksander Ceferin sem settist fyrst í forsetastól UEFA í síðasta mánuði.

Allir 61 úrslitaleikur Evrópukeppni meistaraliða og Meistaradeildarinnar hafa farið fram í Evrópu en telur að það sé ekkert vandamál fyrir liðin og stuðningsmennina að ferðast til Bandaríkjanna.

„Það væri ekki vandamál. Að ferðast frá Portúgal til Aserbaísjan er nánast það sama og að ferðast til New York. Þetta er samt Evrópukeppni þannig að við skulum hugsa betur um þetta,“ sagði Aleksander Ceferin.

Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu 2017 fer fram á Millennium Stadium í Cardiff í Wales og úrslitaleikurinn 2018 fer fram á Ólympíuleikvanginum í Kænugarði í Úkraínu. Það er ekki búið að ákveða það hvar úrslitaleikurinn verði árið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×