Íslenski boltinn

Sindri kominn aftur í Val og búinn að semja til þriggja ára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sindri Björnsson og Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals.
Sindri Björnsson og Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals. mynd/valur
Fótboltamaðurinn ungi Sindri Björnsson er genginn endanlega í raðir Vals en hann skrifaði í kvöld undir þriggja ára samning við Hlíðarendafélagið.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Valsmanna, en Sindri var á láni hjá Val fyrri hluta síðustu leiktíðar frá uppeldisfélagi hans Leikni í Breiðholti.

Sindri spilaði tólf leiki fyrir Valsmenn í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð áður en hann var kallaður aftur heim í Breiðholtið þar sem hann kláraði sumarið.

„Valur er toppklúbbur með mikla sögu sem er í raun heiður að fá að vera hluti af. Ég veit nákvæmleg að hverju ég geng hérna og mér leið einfaldlega hrikalega vel á Hlíðarenda í sumar,“ segir Sindri.

Sindri fór á kostum í 1. deildinni 2014 með Leikni og spilaði með liðinu í efstu deild á síðustu leiktíð. Hann á að baki 98 leiki í meistaraflokki og 17 mörk.

„Markmið mitt er fyrst og fremst að hjálpa klúbbnum við það að vera á þeim stað sem Valur vill vera, sama hvort það sé að ná lengra í Evrópukeppni, toppbarátta í deildinni eða vinna blessaðan bikarinn. Ég ætla mér að verða góð viðbót við annars frábært Valslið,“ segir Sindri Björnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×