Íslenski boltinn

40 erlendir þjálfarar hafa sótt um þjálfarastöðuna hjá KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Kjærnested, formaður Knattspyrnudeildar KR, er enn að leita að þjálfara fyrir næsta tímabil í Pepsi-deild karla í fótbolta. Mikill áhugi er á þjálfarastöðu KR meðal erlendra þjálfara.

Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður 365, hitti Kristinn í dag og fór yfir stöðu mála þegar kemur að leitinni að þjálfara KR sumarið 2017. Erlendir þjálfarar og umboðsmenn þeirra virðast vera áhugasamari en áður um störf hér á landi,

„Það er nýjung myndi ég segja og ég held að árangur landsliðsins spili þar stóra rullu,“ sagði Kristinn Kjærnested í viðtali við Gaupa. Eru KR-ingar að skoða þann möguleika á að vera með erlendan þjálfara hjá liðinu á komandi tímabili?

„Já við erum að skoða alla möguleika. Það eru mörg nöfn að koma inn á borð bæði beint frá umboðsmönnum og svo eins frá þjálfurunum sjálfum sem eru að sækja um störf. Ég gæti ímyndað mér það að þessar umsóknir væru svona 40 til 50 talsins,“ sagði Kristinn en eru þetta þekktir einstaklingar.

„Þeir eru það nefnilega. Margir þeirra eru mjög þekktir en sumir þeirra eru nokkuð dýrir. Einn var að biðja um 700 þúsund krónur á mánuði en það var því miður í evrum,“ sagði Kristinn. Er það raunhæfur kostur fyrir íslensk félög að ráða erlenda þjálfara?

„Ég held að það geti verið það í mörgum tilfellum. Síðan koma inn á borðið nöfn sem átta sig ekki alveg á því hvernig umhverfið hérna er. Þetta er bara eins og með erlenda leikmenn,“ sagði Kristinn.

„Það þarf bara að skoða þetta og það kæmi mér ekkert á óvart að erlendum þjálfurum á Íslandi myndi fjölga á næstu árum,“ sagði Kristinn.

Það er hægt að sjá alla frétt Guðjóns Guðmundssonar með viðtalinu við Kristinn í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×