Fótbolti

Pique viðurkennir að hann ögrar Real Madrid viljandi til að halda rígnum gangandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gerard Pique í baráttunni við Gareth Bale.
Gerard Pique í baráttunni við Gareth Bale. vísir/getty
Gerard Pique, miðvörður Barcelona, viðurkennir að hann ögrar leikmönnum og þjálfurum Real Madrid viljandi til að halda spennustiginu mjög háu í baráttu þessara miklu erkifjenda á Spáni.

Pique hefur margoft fengið fyrirsagnirnar í spænsku blöðunum í aðdraganda El Clásico en orðastríð hans við Alvaro Arbeloa, varnarmann Real Madrid, vakti mikla athygli fyrir nokkrum árum síðan.

Miðverðinum finnst andúðin á milli félaganna áhugaverð en hann viðurkennir að gjörðir sínar taka svolítið kastljósið af því sem hann gerir svo þegar inn á völlinn kemur.

„Ég viðurkenni það, að mér finnst gaman að ögra Real Madrid. Mér finnst gott að hafa spennu í þessu en bara þegar kemur að fótboltanum,“ segir Pique í viðtali við TV3 á Spáni.

„Án þessarar spennu og þessa rígs væri ekkert gaman að fótbolta. Án rígsins myndu leikir Barcelona og Real Madrid ekki vera eins og líf eða dauði. Þegar þessi lið mætast er eins og allt muni ráðast í þeim eina leik.“

„Það er satt að upp á síðkastið ef ég aðeins róað mig. Ég átta mig á því að þegar ég stend í þessu metur fólk ekki hvað ég geri inn á vellinum alveg eins og það ætti að gera. Stundum er þetta bara þannig að ég er beðinn um álit á ýmsum hlutum, þetta er ekki alltaf það að mér finnist svo gaman að tala,“ segir Gerard Pique.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×