Handbolti

Berlínarrefirnir áfram í EHF bikarnum

Erlingur Birgir Richardsson er þjálfari Fusche Berlin.
Erlingur Birgir Richardsson er þjálfari Fusche Berlin. Vísir/Getty
Fusche Berlin, sem Erlingur Richardsson þjálfar og Bjarki Már Elísson leikur með, er komið áfram í EHF bikarnum í handknattleik.

Berlínarrefirnir mættu Chambery frá Frakklandi á heimavelli sínum í dag en þýska liðið vann sigur í fyrri leiknum í Frakklandi, 25-22, og var því í góðri stöðu fyrir leikinn í dag.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi. Staðan í hálfleik var 14-14 og allt í járnum. Í síðari hálfleiknum náði Fusche yfirhöndinni og knúði fram sigur og er því komið áfram í næstu umferð EHF bikarsins. Lokatölur 24-22.

Bjarki Már Elísson skoraði 2 mörk fyrir Fusche en markahæstir voru þeir Kresimir Kozina og Steffen Fath með 4 mörk.

Vignir Svavarsson og félagar í Tvis Holstebro máttu hinsvegar þola stórtap gegn HBC Nantes í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í handknattleik. Lokatölur 35-25 Frökkunum í vil sem voru 19-14 yfir í hálfleik. Vignir skoraði tvö mörk úr tveimur skotum í leiknum.

Holstebro er í neðsta sæti riðilsins með 1 stig en Nantes á toppnum með 7.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×