Spámaðurinn frá Dulúð Guðmundur Andri Thorsson skrifar 17. október 2016 00:00 Sænska akademían sæmir Bob Dylan bókmenntaverðlaunum Nóbels á saman tíma og 40 prósent Bandaríkjamanna virðast samkvæmt könnunum vilja í alvöru bjóða heimsbyggðinni upp á forseta sem tekst í einni persónu að sameina allt það versta sem múgmenning nútímans dregur fram í mannfólkinu. Gott val hjá Svíum: Dylan er verðugur fulltrúi fyrir margt það besta í bandarískri menningu.Ómetanlegt framlag Hvað er þá svona merkilegt við þennan Dylan? Það er nú það. Við höfum þegar heyrt ýmsa ráma raulara nefnda þegar sem verðugri sómans – Tom Waits, Leonard Cohen, og Joni Mitchell – allt frábærir lagasmiðir og skáld – en það breytir ekki hinu tröllaukna framlagi Dylans til að veita ljóðlistina inn í tónlistina – og öfugt – blanda saman ólíkum áhrifum til að þróa listform sem við þekkjum núna sem rokkmúsík, en var naumast til í núverandi mynd þegar hann var að hefja feril sinn. Hans hlutur í þróun söngvaskáldskapar á síðustu öld verður seint ofmetinn. Þetta gerði hann með því að blanda saman hlutum sem á þessum stífu kaldastríðstímum þóttu ósamrýmanlegir: hábrag og lágbrag, svörtum blús og hvítum kántrítrega, hinu sveitalega og borgarbragnum, heimsósómakvæðum og fíflalátum, upphöfnu tungutaki í anda skálda eins og Blake, Robert Frost og Robert Burns og svo aftur „málvillum“ og flatrími. Dylan hefði hvergi getað komið fram nema í þeim undursamlega þjóðapotti sem Bandaríkin eru; sjálfur gyðingur af rússneskum ættum, frá bænum Duluth í Minnesota, þar sem mikið var um Skandínava, þar á meðal Íslendinga eins og okkur heyrðist hann muldra eitthvað um á tónleikum sem hann hélt hér á síðustu öld. Alinn upp í fásinni, sem getur verið vænlegt fyrir verðandi séní. Drengurinn frá Dulúð, Bob Dylan, er sem sagt búinn til úr mörgum þáttum sem aðeins hann gat sett saman í kynlega blöndu. Hann byrjar á að stæla af kostgæfni Woody Guthrie, eftirlæti bandarískra sósíalista, verkalýðssöngvara og flakkara sem manni finnst alltaf eins og stiginn beint út úr bókinni Þrúgur reiðinnar og lamdi gítarinn eins og Dylan og blés í munnhörpu kæruleysislega og impressjóníska hljóma frekar en sjálfa melódíuna. Saman við þetta koma svo áhrif frá hvítum kábojhatta-gaulurum eins og Hank Williams og Jimmie Rogers sem báðir sungu tregasöngva sem áttu eftir að leggja grunninn að bandarískri kántrítónlist, og þóttu ekki par fínir – og svörtum blúsmönnum eins og Mississippi John Hurt og Lonnie Johnson.Vanmetinn söngvari Á mikilvægu mótunarskeiði átti hann því láni að fagna að eiga í sambandi við Suze Rotolo, listakonu í New York, sem útvegaði honum nýtt lesefni og hjálpaði honum að rækta þá róttæku mannúðarhyggju sem skilaði fyrsta klassíska skeiði Dylans: meistaraverkum eins og A Hard Rain's A-Gonna Fall og Masters of War. Nýr áhrifavaldur hafði þarna bæst við þá amerísku – og breytti einhvern veginn öllu: Bertold Brecht, sem sjálfur var fjölþreifinn trúbador og rummungur þegar kom að góðum línum og sögum. Sjálf hugmyndin um þjóðlagasöngvarann gengur út á frjálslegan höfundarrétt, enda um að ræða lög sem hafa farið í munnlegri geymd yfir höf og lönd, enginn sem á þau, og hverjum frjálst að nota þau að vild. Dylan gerði mörg slík lög að sínum með orðasmíð sinni og raddbeitingu – hann er, vel að merkja, einn vanmetnasti söngvari okkar tíma; frábær í fraseringum sínum, raddmikill og mjög tjáningarríkur. Bítlarnir innblésu Dylan annað klassíska skeiðið, þegar hann sá að hægt væri að sameina popplög að hætti þeirra, nálgun og ímynd trúbadorsins sem fór um á miðöldum og söng sína söngva í Evrópu – og átti síðbúinn fulltrúa í þeim sænska Bellman – og svo bættist við þetta annar evrópskur áhrifavaldur: sá franski skrattakollur Arthur Rimbaud. Útkoman var engu lík á þremur plötum sem út komu á árunum 1965 og 66, þar sem til verður ný tegund af listrænni rokkmúsík. Dylan dregur sig svo í hlé árið 1966 og söðlar um í kjölfar mótorhjólaslyss þrotinn að kröftum eftir þrotlausar yrkingar og gítarglamur, langar vökur, mikið partístand með ómældu ódýru rauðvíni, grasreykingum og amfetamíni – rétt eins og Rimbaud hætti eftir að hafa bylt evrópskri ljóðagerð um tvítugt. Hefði Dylan hætt þarna hefði sess hans verið tryggður og framlag hans til vestrænnar menningar þætti nægilegt til að vera verðugt hvaða verðlauna sem er. En hann hélt áfram, reyndi um hríð að sameina fjölskyldulíf og listsköpun; skapaði nýjan Bob Dylan – og svo aftur og aftur, misánægjulega eftir því hvort hann hefur nú enn einn ganginn dottið í Gamla testamentið eða náð sér upp úr því drungalega heimsendagrufli sem slíkum lestri fylgir – en hann er alltaf forvitnilegur og einkennilegur og á einhvern furðulegan máta samkvæmur sjálfum sér.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun
Sænska akademían sæmir Bob Dylan bókmenntaverðlaunum Nóbels á saman tíma og 40 prósent Bandaríkjamanna virðast samkvæmt könnunum vilja í alvöru bjóða heimsbyggðinni upp á forseta sem tekst í einni persónu að sameina allt það versta sem múgmenning nútímans dregur fram í mannfólkinu. Gott val hjá Svíum: Dylan er verðugur fulltrúi fyrir margt það besta í bandarískri menningu.Ómetanlegt framlag Hvað er þá svona merkilegt við þennan Dylan? Það er nú það. Við höfum þegar heyrt ýmsa ráma raulara nefnda þegar sem verðugri sómans – Tom Waits, Leonard Cohen, og Joni Mitchell – allt frábærir lagasmiðir og skáld – en það breytir ekki hinu tröllaukna framlagi Dylans til að veita ljóðlistina inn í tónlistina – og öfugt – blanda saman ólíkum áhrifum til að þróa listform sem við þekkjum núna sem rokkmúsík, en var naumast til í núverandi mynd þegar hann var að hefja feril sinn. Hans hlutur í þróun söngvaskáldskapar á síðustu öld verður seint ofmetinn. Þetta gerði hann með því að blanda saman hlutum sem á þessum stífu kaldastríðstímum þóttu ósamrýmanlegir: hábrag og lágbrag, svörtum blús og hvítum kántrítrega, hinu sveitalega og borgarbragnum, heimsósómakvæðum og fíflalátum, upphöfnu tungutaki í anda skálda eins og Blake, Robert Frost og Robert Burns og svo aftur „málvillum“ og flatrími. Dylan hefði hvergi getað komið fram nema í þeim undursamlega þjóðapotti sem Bandaríkin eru; sjálfur gyðingur af rússneskum ættum, frá bænum Duluth í Minnesota, þar sem mikið var um Skandínava, þar á meðal Íslendinga eins og okkur heyrðist hann muldra eitthvað um á tónleikum sem hann hélt hér á síðustu öld. Alinn upp í fásinni, sem getur verið vænlegt fyrir verðandi séní. Drengurinn frá Dulúð, Bob Dylan, er sem sagt búinn til úr mörgum þáttum sem aðeins hann gat sett saman í kynlega blöndu. Hann byrjar á að stæla af kostgæfni Woody Guthrie, eftirlæti bandarískra sósíalista, verkalýðssöngvara og flakkara sem manni finnst alltaf eins og stiginn beint út úr bókinni Þrúgur reiðinnar og lamdi gítarinn eins og Dylan og blés í munnhörpu kæruleysislega og impressjóníska hljóma frekar en sjálfa melódíuna. Saman við þetta koma svo áhrif frá hvítum kábojhatta-gaulurum eins og Hank Williams og Jimmie Rogers sem báðir sungu tregasöngva sem áttu eftir að leggja grunninn að bandarískri kántrítónlist, og þóttu ekki par fínir – og svörtum blúsmönnum eins og Mississippi John Hurt og Lonnie Johnson.Vanmetinn söngvari Á mikilvægu mótunarskeiði átti hann því láni að fagna að eiga í sambandi við Suze Rotolo, listakonu í New York, sem útvegaði honum nýtt lesefni og hjálpaði honum að rækta þá róttæku mannúðarhyggju sem skilaði fyrsta klassíska skeiði Dylans: meistaraverkum eins og A Hard Rain's A-Gonna Fall og Masters of War. Nýr áhrifavaldur hafði þarna bæst við þá amerísku – og breytti einhvern veginn öllu: Bertold Brecht, sem sjálfur var fjölþreifinn trúbador og rummungur þegar kom að góðum línum og sögum. Sjálf hugmyndin um þjóðlagasöngvarann gengur út á frjálslegan höfundarrétt, enda um að ræða lög sem hafa farið í munnlegri geymd yfir höf og lönd, enginn sem á þau, og hverjum frjálst að nota þau að vild. Dylan gerði mörg slík lög að sínum með orðasmíð sinni og raddbeitingu – hann er, vel að merkja, einn vanmetnasti söngvari okkar tíma; frábær í fraseringum sínum, raddmikill og mjög tjáningarríkur. Bítlarnir innblésu Dylan annað klassíska skeiðið, þegar hann sá að hægt væri að sameina popplög að hætti þeirra, nálgun og ímynd trúbadorsins sem fór um á miðöldum og söng sína söngva í Evrópu – og átti síðbúinn fulltrúa í þeim sænska Bellman – og svo bættist við þetta annar evrópskur áhrifavaldur: sá franski skrattakollur Arthur Rimbaud. Útkoman var engu lík á þremur plötum sem út komu á árunum 1965 og 66, þar sem til verður ný tegund af listrænni rokkmúsík. Dylan dregur sig svo í hlé árið 1966 og söðlar um í kjölfar mótorhjólaslyss þrotinn að kröftum eftir þrotlausar yrkingar og gítarglamur, langar vökur, mikið partístand með ómældu ódýru rauðvíni, grasreykingum og amfetamíni – rétt eins og Rimbaud hætti eftir að hafa bylt evrópskri ljóðagerð um tvítugt. Hefði Dylan hætt þarna hefði sess hans verið tryggður og framlag hans til vestrænnar menningar þætti nægilegt til að vera verðugt hvaða verðlauna sem er. En hann hélt áfram, reyndi um hríð að sameina fjölskyldulíf og listsköpun; skapaði nýjan Bob Dylan – og svo aftur og aftur, misánægjulega eftir því hvort hann hefur nú enn einn ganginn dottið í Gamla testamentið eða náð sér upp úr því drungalega heimsendagrufli sem slíkum lestri fylgir – en hann er alltaf forvitnilegur og einkennilegur og á einhvern furðulegan máta samkvæmur sjálfum sér.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.