Íslenski boltinn

Veigar Páll samdi við meistarana

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Veigar með Jóni Rúnari Halldórssyni, formanni knattspyrnudeildar, og Ólafi Páli Snorrasyni aðstoðarþjálfara.
Veigar með Jóni Rúnari Halldórssyni, formanni knattspyrnudeildar, og Ólafi Páli Snorrasyni aðstoðarþjálfara. vísir/ernir
Veigar Páll Gunnarsson, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í fótbolta, er genginn í raðir Íslandsmeistara FH en hann gekk frá samningum við Hafnafjarðarliðið á blaðamannafundi í Kaplakrika í hádeginu.

Veigar Páll kemur til FH frá uppeldisfélagi sínu Stjörnunni þangað sem hann sneri aftur fyrir fjórum árum þegar farsælum þrettán ára atvinnumannaferli lauk.

Þá var einnig tilkynnt að samhliða því að spila með meistaraflokki FH mun hann einnig sinna afreksþjálfun hjá félaginu. Veigar Páll gerði eins árs samning við Hafnfirðinga.

Þessi 36 ára gamli framherji varð Íslandmeistari með Stjörnunni sumarið 2014 en hann skoraði þá sex mörk í 17 leikjum. Veigar varð einnig Íslandsmeistari með KR sumarið 2003 þegar hann skoraði sjö mörk í 13 leikjum en eftir það fór hann í atvinnumennsku.

Vísir/Ernir
Veigar Páll á að baki 127 leiki í efstu deild en hann hefur skorað í þeim 33 mörk. Hann skoraði fimm mörk í 17 leikjum fyrir Stjörnuna í sumar sem hafnaði í öðru sæti á eftir FH en Veigar var mikið notaður sem varamaður. Hann byrjaði aðeins þrjá leiki af 17 í sumar og skoraði fjögur mörk eftir að koma inn af bekknum. Í bæði skiptin var um að ræða sigurleiki.

Á ferli sem hefur nú staðið yfir í tvo áratugi spilaði Veigar Páll 34 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim sex mörk. Hann náði mestum hæðum í atvinnumennskunni með Stabæk í Noregi þar sem hann varð Noregsmeistari árið 2008.

Veigar Páll er fyrsti leikmaðurinn sem FH fær til sín eftir að tímabilinu lauk en áður var það búið að ganga frá nýjum samningi við skoska framherjann Steven Lennon.


Tengdar fréttir

Steven Lennon í FH næstu tvö árin

Skoski framherjinn Steven Lennon verður áfram í herbúðum Íslandmeistara FH en hann hefur gert nýjan tveggja ára samning við leikmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×