Fótbolti

Eibar náði óvæntu jafntefli á Santiago Bernabeu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bale jafnar metin fyrir Real Madrid í leiknum í dag.
Bale jafnar metin fyrir Real Madrid í leiknum í dag. vísir/getty
Smáliðið Eibar náði óvæntu 1-1 jafntefli gegn stjörnum prýddu liði Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í dag en þetta var þriðja jafntefli Madrídar-manna í röð eftir að hafa unnið fyrstu fjóra leiki tímabilsins.

Eibar komst óvænt yfir í höfuðborginni með marki frá Fran Rico á 6. mínútu en ellefu mínútum síðar jafnaði Gareth Bale metin með skalla.

Var þetta 50. mark Bale í treyju Real Madrid en hann er markahæsti breski leikmaðurinn í sögu félagsins.

Bale fékk færi til að bæta við marki í seinni hálfleik en skalli hans hafnaði í slánni. Var það besta færi Madrídar-manna sem sóttu án afláts en náðu ekki að bæta við marki.

Real Madrid mistókst því að ná toppsætinu af nágrönnum sínum í Atletico Madrid en nágrannaliðin eru jöfn að stigum í 1-2. sæti deildarinnar. Barcelona getur komist upp fyrir Madrídar-liðin með sigri gegn Athletic Bilbao seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×