Íslenski boltinn

Jeffs heldur áfram með kvennalið ÍBV

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ian Jeffs hefur verið leikmaður ÍBV um árabil.
Ian Jeffs hefur verið leikmaður ÍBV um árabil. Vísir
Ian Jeffs mun ekki halda áfram sem þjálfari karlaliðs ÍBV en það kom fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag.

Jeffs tók við þjálfun liðsins ásamt Alfreð Elíasi Jóhannssyni á miðju tímabili eftir að Bjarni Jóhannsson hætti óvænt með liðið og tókst þeim að halda ÍBV í Pepsi-deild karla.

Jeffs mun halda áfram að þjálfa kvennalið ÍBV líkt og hann hefur áður gert en Alfreð Elías hefur ákveðið að taka við þjálfun kvennaliðs Selfoss.

Tilkynningu ÍBV má lesa hér fyrir neðan:

„Knattspyrnuráð karla ÍBV hefur átt í viðræðum við Ian David Jeffs að taka að sér þjálfun mfl. karla ÍBV í knattspyrnu.  Niðurstaðan er sú að Ian David Jeffs hefur ákveðið að taka ekki tilboði ráðsins um þjálfun liðsins. Þess í stað hefur hann ákveðið að halda áfram þjálfun kvennaliðs ÍBV.

Knattspyrnuráð karla þakkar Ian David Jeffs fyrir hans góða framlag við að tryggja veru karlaliðs ÍBV í deild þeirra bestu, og óskar honum áframhaldandi velgengni í sínum störfum fyrir kvennalið ÍBV.

Knattspyrnuráð karla þakkar einnig Alfreð Elíasi Jóhannssyni fyrir samstarfið á sl. keppnistímabili. Alfreð náði góðum árangri með 2.flokk karla og starfaði einnig sem aðstoðarþjálfari mfl. karla þar til hann og Ian David Jeffs tóku að sér mfl. karla við brotthvarf fyrri þjálfara.  Knattspyrnuráð karla óskar Alfreð velfarnaðar í nýju starfi.

Knattspyrnuráð karla mun halda áfram að vinna í ráðningu þjálfara fyrir komandi keppnistímabil og tilkynna frekar um þann framgang eftir því sem aðstæður gefa efni til.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×