Skoðun

Hið smáa

Logi Einarsson skrifar
Hugsum okkur grafískan hönnuð á Kópaskeri, forritara á Húsavík og þýðanda á Breiðdalsvík. Fólk sem hefur fjárfest í góðri menntun, fylgt hjartanu við starfsval, er líklegt til að vinna í litlu fyrirtæki og getur, ef vel er haldið á spöðunum, starfað að hugðarefnum sínum hvar sem er á landinu.

Örvun smáfyrirtækja hefur ótvíræða kosti; uppbyggingin er ódýr, áhættulítil, þarfnast lítillar yfirbyggingar og gerist hægt eða hratt, eftir smekk, vilja eða nauðsyn. Fólk getur starfað við það sem hugurinn girnist, fyllt líf sitt af meiri hamingju sem er gott fyrir fjölskyldulífið og smitar út í samfélagið.

Með því að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu sem krefst ekki sérstakrar staðsetningar, með almennum aðgerðum sem gagnast alls staðar, ekki síst smáum fyrirtækjum, erum við líkleg til að styrkja byggðir landsins; reisa þeim öflugar stoðir og glæða lífi.

Það er því skynsamlegt að búa slíkum fyrirtækjum hagstæðan rekstrargrundvöll. Til þess þarf að tryggja næga raforku um allt land og háhraða nettengingu. Þá þurfa hefðbundnar samgöngur að vera greiðar og öruggar. Loks er mikilvægt að lækka tryggingagjald, enda er það skattur sem er reiknaður út frá launakostnaði og bitnar því harðast á starfsemi sem byggist einkum á hugviti.

Það er brýnt að hlúa vel að hinu fíngerða í gangverki atvinnulífsins.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×