Fótbolti

Wenger ánægður með sigurinn og ætlar ekki að taka við enska landsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger fer ekki neitt.
Arsene Wenger fer ekki neitt. vísir/getty
Arsenal vann sannfærandi 2-0 sigur á svissnesku meisturunum í Basel í kvöld þar sem Theo Walcott skoraði bæði mörkin í fyrri hálfleik.

Birkir Bjarnason var í byrjunarliði Basel og fékk ágætis færi í seinni hálfleik auk þess sem skot hans fyrir utan teig var varið af David Ospinna. Annars réði Arsenal lögum og lofum í leiknum.

„Við sýndum gæði í þessum leik og sigurinn var þægilegur. Eina eftirsjáin er að skora ekki meira því við sköpuðum mikið af færum en í heildina spiluðum við frábæran fótbolta,“ sagði Wenger eftir leikinn.

Arsenal vann Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, 3-0, um síðustu helgi og er á miklum skriði þessa dagana. „Eins og á laugardaginn vorum við hægari í seinni hálfleik eftir flottan fyrri hálfleik,“ sagði Wenger sem var ánægður með mörkin tvö frá Theo Walcott.

„Mikilvægast er það sem kemur frá leikmanninum sjálfum. Hann spilaði frábærlega í kvöld og þessa dagana er hann í stuði,“ sagði Wenger.

Frakkinn hefur verður orðaður sem næsti þjálfari enska landsliðsins eftir að Sam Allardyce þurfti að segja af sér. Wenger var spurður út í það í kvöld.

„Ég er 100 prósent einbeittur á Arsenal og félagið verður áfram í forgangi hjá mér. Það mun ekki breytast,“ sagði Arsene Wenger.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×