Sport

Kolbeinn enn ósigraður | „Átti von á meiri mótstöðu þegar komið var í hringinn”

Kolbeinn sáttur að bardaganum loknum í kvöld.
Kolbeinn sáttur að bardaganum loknum í kvöld. Vísir/Aðsend mynd
Hnefaleikakappinn Kolbeinn Kristinsson vann sjöunda atvinnumannabardagann í röð er hann mætti Georgíumanninn David Gegesdidze í bardaga sem fór fram í Álandseyjum í dag.

Var þetta sjöundi bardagi Kolbeins á atvinnumannaferlinum en hann hélt uppteknum hætti og sigraði bardagann, nú í fjórðu lotu.

Segir hann á Twitter-síðu sinni að það hafi verið erfitt að berjast gegn aðila sem vildi ekki berjast en honum var dæmdur sigur af dómara (TKO).

„Ég er himinlifandi. Ég æfði eins og skepna fyrir þennan bardaga og var algjörlega viss í minni sök með það að ég myndi vinna þegar ég steig inn í hringinn,” sagði Kolbeinn að bardaganum loknum.

„Þetta var andstæðingur með mikla reynslu og af pappírunum að dæma þá hefði ég gert ráð fyrir mun meiri mótstöðu en þeirri sem ég mætti. Það var eins og hann vildi bara alls ekki vera þarna. Reyndar finnst mér það alveg skiljanlegt,” sagði Kolbeinn brosandi en þessi 28 ára gamli kappi er strax farinn að hlakka til næsta bardaga.

„Ég er 28 ára gamall og atvinnuferillinn minn er rétt bara að hefjast. Ég finn skýrt hversu mikið ég bæti mig á milli bardaga og ég get alveg lofað því að ég verð ennþá öflugri næst þegar ég fer í hringinn.”

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×