Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin þegar FH steig risaskref í átt að titlinum | Myndbönd

FH steig risastórt skref í átt að því að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn er liðið gerði jafntefli gegn Breiðablik í Kaplakrika í dag en jafnteflið þýðir að liðið er með sjö stiga forskot á toppnum þegar fjórar umferðir eru eftir.

Allt annað en sigur fyrir Blika þýddi að vonir liðsins um titilinn væru nánast úr sögunni en Árni Vilhjálmsson fékk sannkallað draumafæri eftir níu sekúndur þegar hann slapp í gegn eftir varnarmistök en skaut yfir.

Sjá einnig:Umfjöllun: FH - Breiðablik 1-1 | FH áfram í lykilstöðu

Árni bætti upp fyrir það þegar hann kom Blikum yfir á 32. mínútu, aftur eftir mistök í vörn FH-inga. Slapp hann inn fyrir vörn FH og renndi boltanum framhjá Gunnari Nielsen í markinu.

Það tók FH ekki langan tíma að jafna en þar var að verki Kristján Flóki Finnbogason eftir sendingu frá Böðvari Böðvarssyni aðeins mínútu eftir mark Árna.

Blikar reyndu að færa sig framar á völlinn eftir því sem leið á leikinn en náðu ekki að kreista fram sigurmark og lauk leiknum því með jafntefli.

Í spilaranum fyrir ofan má sjá mörkin úr Kaplakrika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×