Fótbolti

Messi, Neymar og Suárez skorað eða lagt upp tæplega 400 mörk fyrir Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
MSN skorar mörk.
MSN skorar mörk. vísir/getty
Barcelona gerði lítið úr skosku meisturunum í Celtic þegar liðin mættust á Nývangi í fyrstu leikviku Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi en Börsungar fögnuðu 7-0 sigri.

Eins og alltaf var MSN-framherjatríóið; Lionel Messi, Luis Suárez og Neymar, í miklu stuði en það kom að öllum sjö mörkum Barcelona í leiknum.

Lionel Messi skoraði þrennu en þetta var sjötta þrennan hans í Meistaradeildinni og sú 36. fyrir Barcelona. Enginn hefur skorað fleiri þrennur en Messi í Meistaradeildinni.

Argentínumaðurinn minnkaði líka forskot Cristiano Ronaldo í markakeppni þeirra í Meistaradeildinni en Messi er nú með 86 mörk á móti 93 mörkum Ronaldo sem mætir til leiks með Real Madrid í kvöld.

Luis Suárez skoraði tvö mörk fyrir Barcelona en Lionel Messi lagði upp bæði mörkin fyrir hann og kom því með beinum hætti að fimm af sjö mörkum Barcelona. Suárez lagði upp þriðja mark Messi.

Brasilíumaðurinn Neymar lagði upp þrjú mörk og skoraði eitt beint úr aukaspyrnu en hann lagði upp tvö mörk fyrir Lionel Messi og eitt fyrir Andrés Iniesta sem kom inn á sem varamaður í hálfleik.

Messi, Suárez og Neymar hafa spilað saman síðan byrjun tímabils 2014-2015 og skorað á þeim tíma 266 mörk samtals og lagt upp önnur 128. Í heildina hefur þríeykið komið með beinum hætti að 394 mörkum fyrir Barcelona og nálgast nú óðfluga 400 mörk.

Á fyrstu tveimur leiktíðum þeirra saman skoraði Lionel Messi 99 mörk og lagði upp 57, Suárez skoraði 78 og lagði upp 50 og Neymar skoraði 70 og lagði upp 38. Algjörlega fáránlegar tölur.


Tengdar fréttir

Börsungar í sjöunda himni

Lionel Messi skoraði þrennu þegar Barcelona rúllaði yfir Celtic, 7-0, á Nývangi í C-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×