Matur

Buff með grænmetisturni: Spergilkál er grænmeti ástarinnar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Valentína setur punktinn yfir með tómatpúré.
Valentína setur punktinn yfir með tómatpúré. Vísir/GVA
Spergilkálsbuff með grænmetisturni.

Spergilkál er í miklu uppáhaldi hjá mér og þegar þetta íslenska kemur í búðirnar á haustin þá hef ég það alltaf á borðum, oftast bara með smjöri og salti en það hentar líka mjög vel í matarmikil salöt,“ segir Valentína Björnsdóttir í Móður náttúru, sem framleiðir grænmetisrétti.

Valentína segir nauðsynlegt að passa sig að sjóða spergilkál minna en meira, því það haldi áfram að soðna eftir að það komi af hitanum. „Tveggja til fjögurra mínútna suða í gufu, eða mjög litlu vatni, er fín, fer eftir stærð hausanna,“ segir hún.



Valentínu finnst líka skipta máli hvernig kálið er skorið. „Ég fer með lítinn hníf inn í krónuna og liða hana í sundur eftir greinunum. Margir skera stöngulinn alveg frá en ég sker bara allra neðsta partinn af, skef svo utan af stönglinum ef hann er trénaður og nota afganginn. Ég hef ræktað spergilkál, það hefur gengið misvel en mig dreymir um að eiga spergilkálsakra!“

Svo kemur ein rómantísk saga.

„Þegar við hjónin giftum okkur fyrir 15 árum fórum við í brúðkaupsferð austur fyrir fjall í bústað og komum við á Hæðarenda í Grímsnesi til að kaupa gulrætur. Þegar við spurðum eftir spergilkáli sagði bóndinn: „Ég er hættur að tína það, fariði bara út á akurinn og fáið ykkur.“  Þarna innsigluðum við hjónabandið með fullum poka af þessu himneska káli og fannst við ofsalega rík. Hjónabandið hefur enst þannig að spergilkál er grænmeti ástarinnar!“





Spergilkál hentar vel í matarmikil salöt, hér er eitt slíkt úr eldhúsi Valentínu. Fréttablaðið/GVA

Buff með grænmetisturni

Fyrir 2 til 4

400 gr soðin hýðishrísgrjón

200 gr soðnar kjúklingabaunir

100 gr soðnar kartöflur

½ bolli rifið spergilkál

3 msk. saxaður graslaukur

1/2 msk. salt

2 msk. Mexíkókryddblanda

Brauðrasp eða haframjöl

Hnoðið allt saman í hræri- eða matvinnsluvél. Mótið buffin í höndunum og veltið þeim upp úr brauðraspi eða haframjöli og steikið.

1 vænn haus spergilkál skorinn í fallega kvisti, léttsoðinn í söltu vatni.

Olía til steikingar

1 rauðlaukur gróft saxaður

2 hvítlauksrif fínt söxuð

1 kúrbítur skorinn í bita

2 lúkur spínat

1 lúka ferskt basil

½ tsk. rósmarín

Salt og pipar

1 msk. rúsínur

2 msk. sítrónusafi

8 msk. rauð pastasósa

Rifinn vegan ostur

4 litlir tómatar

Steikið saman á pönnu rauðlauk, hvítlauk og kúrbít. Þegar það er farið að brúnast bætið þá spínati, basil, kryddum og rúsínum út í og látið mýkjast aðeins á pönnunni. Hellið sítrónusafa yfir.

Setjið steikta grænmetið yfir buffin.

Setjið tvær matskeiðar af pastasósu á hvert buff, rifinn ost og einn smátómat.

Setjið réttinn í ofninn og bakið í fimm mínútur á 60°C eða þar til osturinn er bráðinn.

Berið fram með fersku salati.





Það er ekki sama hvernig grænmeti er skorið, segir Valentína.

Spergilkálssalat með grænmetisbollum og satay-sósu

Fyrir 2 til 4

1 vænn haus spergilkál, skorinn í fallega kvisti og léttsoðinn í söltu vatni

Væn lúka strengjabaunir léttsoðnar

1 rauðlaukur skorinn í sex báta, penslaður með olíu og bakaður í ofni í ca. 20 mínútur á 170°C

1 pakki Dheli koftas, bakað í ofni í 10 mínútur á 170°C

½ dl kasjúhnetur, ristaðar í ofni í 5 mínútur á 170°C

1 mangó, frosið eða ferskt, skorið í bita

1 rauð paprika, skorin í bita

2 vorlaukar sneiddir fínt

Ferskt salat að eigin vali

Kælið brokkoli, strengjabaunir, Dheli koftas og rauðlauk.

Blandið öllu varlega saman.





sdaFRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Satay sósa vegan

30 g engifer afhýtt

200 ml eplasafi

150 ml kókosmjólk

½ lúka ferskt kóríander

2 msk. hnetusmjör

30 ml sojasósa

½ rautt chilli

½ tsk. svartur pipar

½ tsk. salt

2 msk. sítrónusafi

Allt sett í blender.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. september 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×