Skoðun

Hættu að þrauka

Vinir hófu að hlaupa fyrir nokkrum árum. Nei, þetta er ekki pistill um hlaup heldur dæmisaga svo óhætt er að lesa áfram. Maðurinn hafði hlaupið í nokkurn tíma og vildi hvetja konuna sína áfram í hennar upphafshlaupum. Hún átti, eðlilega, erfitt með að halda í við hlaupakarlinn og á einhverjum hlaupa­túrnum kvartaði hún ítrekað yfir erfiðinu. Sagði hann þá við hana, hættu að þrauka, hlauptu bara!

Þessi orð eru mér hugleikin því þau eiga oft við. Ég segi þau stundum við sjálfa mig þegar sjálfsvorkunn yfir einhverju ástandinu þvælist fyrir mér. Nú er ég ekki að tala um stórkostlega erfiðleika, heldur almenna vellíðan. Það að bera ábyrgð á líðan sinni og sinna. Að einblína ekki á þúfurnar heldur landslagið allt.

Einnig má heimfæra þetta upp á þingmennskuna. Nú er leikmannaskiptaglugginn opinn. Óvenjustór hópur þingmanna hefur ákveðið að hætta af sjálfsdáðum. Aðrir bíða örlaga sinna í prófkjörum, uppstillingum og kjördæmafundum. Í fjölmiðlum ræða þingmenn hugsjónir sínar. Aðrir hafa látið til leiðast að halda áfram þrátt fyrir mikla erfiðleika á þinginu, hörmulegt starfsumhverfi, lág laun og vondan móral innan þings sem utan. Við þessa þingmenn vil ég segja. Ef þið teljið ykkur neyðast til að taka starfið að ykkur, hættið frekar en að þrauka. Ef þið brennið enn af hugsjónum má vel vera að ég sé til í að ráða ykkur í vinnu. Ekki þrauka – hlaupið bara.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×