Skoðun

Hlaupið til góðs

Edda Hermannsdóttir skrifar
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram á laugardaginn. Hlaupið er haldið í 33. sinn og óhætt er að segja að hlaupið sé fastur liður hjá mörgum landsmönnum. Um leið og þarna koma saman þátttakendur sem hafa æft stíft undanfarnar vikur og mánuði þá er þetta ekki síður dagur allrar fjölskyldunnar þar sem allir hafa tök á því að taka þátt, ungir sem aldnir. Styttri veglengdir henta styttri fótleggjum og síðan má alltaf ganga lengri vegalengdir og njóta þess að vera með.

Fyrir 33 árum tóku 214 hlauparar þátt en í fyrra voru þátttakendur yfir 15.000. Skráningin í ár gengur vel og eru þegar tæplega 11.000 skráðir til leiks sem er fjölgun miðað við sama tíma í fyrra. Hún skýrist að mestu leyti af fjölgun erlendra þátttakenda. Það er mjög ánægjulegt að fleiri komi til Íslands og taki þátt og upplifi hlaup eins og Reykjavíkurmaraþonið.

Þó hlaupið sjálft sé heilsueflandi og skemmtilegt þá er einna mikilvægast að þúsundir hlaupara safna áheitum til góðra málefna. Söfnun Reykjavíkurmaraþonsins hefur vaxið gríðarlega hratt á undanförnum árum og í fyrra söfnuðust yfir 80 milljónir króna fyrir 167 félög. Þetta skiptir félögin gríðarlega miklu máli og mörg þeirra láta sitt ekki eftir liggja og hvetja hlaupara áfram.

Í ár var markið sett hátt en markmiðið er að safna 100 milljónum til góðra mála. Það er frábært að sjá þátttakendur biðja um stuðning við sitt félag og þar munar sannarlega um hverja krónu. Það eru þátttakendur sjálfir sem gera þetta hlaup að því sem það er og styðja við mikilvæg málefni með því að koma saman í sameiginlegu átaki.

Við hvetjum því alla til að taka þátt á laugardaginn, þá sem vilja ganga og hafa gaman, þá sem vilja elta Pókemon-karla og svo auðvitað þá sem hafa lagt blóð, svita og tár í hlaupaæfingar. Það er einstök tilfinning að hlaupa um götur Reykjavíkur þar sem íbúar hvetja hlaupara áfram með tónlist, trommum og klappi. Það eru allir hetjur í Reykjavíkurmaraþoninu: hlauparar, aðstandendur, þeir sem heita á hlauparana og síðast en ekki síst: þeir sem njóta góðs af áheitasöfnuninni.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×