Sport

Ekkert nema konur á eftir Þormóði á setningarathöfninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þormóður Árni Jónsson.
Þormóður Árni Jónsson. Vísir/Anton
Þormóður Árni Jónsson verður fánaberi Íslands á setningarathöfninni í kvöld eins og áður hefur komið fram en hann verður jafnframt eini íslenski karlkyns keppandinn sem gengur inn á völlinn.

Ísland sendir átta keppendur til leiks á Ólympíuleikana í ár, fimm konur og þrjá karla.

Allar fimm konunar; Aníta Hinriksdóttir, Ásdís Hjálmsdóttir, Eygló Ósk Gústafsdóttir,Irina Sazonova og Hrafnhildur Lúthersdóttir, verða með á setningarathöfninni en aðeins einn karlanna.

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason kemur seinna til Ríó en hann er að leggja lokahöndina á undirbúning sinn í Bandaríkjunum.

Sundmaðurinn Anton Sveinn Mckee keppir einn Íslendinga daginn eftir og hann hefur tekið þá ákvörðun að sleppa því að fara á setningarathöfnina.

Íslenski hópurinn þarf að fara í langa rútuferð frá Ólympíuþorpinu að Maracana-leikvanginum og þá tekur við löng bið áður en gengið verður inn á leikvanginn. Það er því skynsemin sem ræður hjá Antoni Sveini.

Að minnsta kosti sex manns úr fararstjórn íslenska liðsins munu einnig ganga inn með íslenska hópnum og þar verða bæði karlar og konur. Íþróttafólkið mun hinsvegar ganga fremst og þar mun heimurinn sjá ekkert nema konur ganga á eftir Þormóði fánabera.




Tengdar fréttir

Með sambataktinn í sundlaugina

Íslenski Ólympíuhópurinn var boðinn formlega velkominn í Ólympíuþorpið í gærkvöldi með fjölmennum sambadansi og klassískri Ríó-stemmningu

Íslenskar íþróttakonur í meirihluta í fyrsta sinn á ÓL

Fimm konur skipa átta manna Ólympíulið Íslands í Ríó. Þetta er í fyrsta sinn í keppnissögu Íslendinga á sumarólympíuleikum þar sem konur eru í meirihluta. Leikarnir í Ríó eru því þegar orðnir sögulegir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×