Sport

Anton Sveinn svekktur: Ég verð bara að bregðast rétt við og halda áfram

Óskar Ófeigur Jónsson í Ríó skrifar
Anton Sveinn McKee fyrir sundið í kvöld.
Anton Sveinn McKee fyrir sundið í kvöld. Vísir/Anton
Það leyndi sér ekki að Anton Sveinn McKee var mjög svekktur eftir 100 metra bringusundið á Ólympíuleikunum í Ríó í dag en hann var þar nokkuð frá sínu besta.

Anton Sveinn á best 1:00,53 mín. frá HM í Kazan 2015 en hann kom í mark í sjöunda sæti í sínum riðli á 1:01.84 mín. sem er meira en sekúndu frá hans besta.

„Vissulega var ég með aðeins stærri markmið en þetta en svona er þetta bara," sagði Anton Sveinn eftir sundið. Hann endaði aðeins með 35. besta tímann í undanrásunum.

„Ég byrjaði allt í lagi út og var þá bara aðeins frá mínu besta. Svo stirnaði ég upp í lokinn og þetta var orðið fullerfitt að klára heim að fullum krafti," sagði Anton.

Sjá einnig:Anton Sveinn sjöundi og komst ekki áfram

„Miðað við það sem þjálfarinn minn sagði þá var ég aðeins of hraður út. Það var ekki hvað varðar tímann heldur tempóið. Ég ætlaði að vera með aðeins með minna tempó en það átti ekki að slá mig alveg útaf laginu," sagði Anton Sveinn.

Riðlarnir voru ekki búnir þegar Anton Sveinn var kominn í viðtalssalinn en vonin um sæti í undanúrslitum var samt löngu dáin.

„Ég er ekkert að fara að komast áfram. Þetta gekk ekki hjá mér í dag," sagði Anton Sveinn.

„Ég verð bara að halda áfram. Maður verður að undirbúa sig fyrir allt. Auðvitað langaði mig að ganga vel en þetta fer ekki allt eins og maður vill," sagði Anton.

„Ég verð bara að bregðast rétt við því og halda áfram. Það þúðir ekkert að hætta núna," sagði Anton og það góða er að hans besta grein er eftir. "Ég ætla mér meira þar," sagði Anton að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×