Sport

Ísland fékk sæti en missti um leið sæti í fimleikakeppni ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Pétursdóttir og Irina Sazonova.
Berglind Pétursdóttir og Irina Sazonova. Vísir/Anton
Ísland á fulltrúa í fimleikakeppni kvenna á Ólympíuleikunum í fyrsta sinn þegar undankeppni fjölþrautarinnar á ÓL í Ríó fer fram í kvöld.

Irina Sazonova vann sér sæti í fimleikakeppninni og keppir í kvöld um það að komast í 24 manna úrslit í fjölþraut kvenna. Það verður mjög erfitt enda samkeppnin gríðarleg.

Í íslenska hópnum er ein kona sem þekkir fimleikakeppni kvenna vel á Ólympíuleikum en Berglind Pétursdóttir, sem er nú flokkstjóri og sjúkraþjálfari fimleikanna á ÓL 2016, hefur dæmt í fimleikkeppni leikanna.

„Ég hef farið tvisvar áður og þá hefur mér verið boðið sem dómari. Það sem er kannski ekki eins skemmtilegt er að hingað til hafa lönd alltaf átt rétt á því að hafa dómari ef þau eru með keppenda," segir Berglind sem var að vonast til þess að fá að dæma á sínum þriðju Ólympíuleikum.

„Þegar við loksins eigum keppanda þá er búið að breyta reglunum og við eigum ekki rétt á dómara þótt að Irina sé að keppa. Við höfðum síðan ekki heppnina með okkur í að vera dregin út sem dómari," segir Berglind.

„Ef að sömu reglur hefðu verið í gildi þá hefði ég verið í dómarahlutverkinu hér. Þetta er samt nýtt sjónarhorn fyrir mig og ég hef sem dæmi ekki verið í Ólympíuþorpinu áður," segir Berglind.

Irina Sazonova keppir í undankeppni fjölþrautarinnar klukkan 20.30 í kvöld að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×