Sport

Eygló Ósk í undanúrslit: Hinar vita þá ekkert af mér ef ég fer hraðar í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson í Ríó skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir eftir sundið.
Eygló Ósk Gústafsdóttir eftir sundið. Visir/Anton
Eygló Ósk Gústafsdóttir komst í undanúrslit í 100 metra baksundi en þrátt fyrir að vera fimmta í sínum riðli þá komst hún áfam. Eygló Ósk var með sextánda besta tímann í undanrásunum og sextán komust í undanúrslit.

„Þetta var heppni eða lán í ólani eins og ég segi," sagði Eygló Ósk eftir sundið. Sundbolur Eyglóar Óskar Gústafsdóttur rifnaði rétt fyrir sundið en hún náð samt sem áður að synda sig inn i undanúrslit.

„Ég er mjög ánægð með að fá annað tækifæri til að synda. Mér er sama þótt að ég sé síðust því ég er allavega með braut. Hinar vita þá ekkert af mér ef ég fer hraðar í kvöld," sagði Eygló.

„Ég fann ekkert rosalega mikið fyrir sundbolnum þegar ég var að synda og ég fékk ekkert inn á sundbolinn. Þetta var samt alltaf aftan í hausnum á mér. Þetta var því meira andlega hliðin en að þetta væri eitthvað að trufla sundið," sagði Eygló.

„Ég vonast til að gera betur í kvöld og þetta gerist ekki aftur. Annars ætla ég bara að vera með þrjá auka sundboli í vasanum," sagði Eygló í léttum tón.

„Ég fann ekki alveg taktinn í fyrstu 50 af því ég held að ég hafi verið að passa mig. Svo hugsaði ég bara: Ég læt vaða. Ég ákvað bara að gefa í þetta og mér leið miklu betur í seinni 50 metrunum," sagði Eygló Ósk.

„Ég var að fylgjast með hinum riðlinum allan tímann í viðtalssalnum. Það skiptir öllu að fá annað tækifæri og ég vonast til að gera ennþá betur í kvöld," sagði Eygló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×