Sport

Michael Phelps vann sitt nítjánda Ólympíugull í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson í Ríó skrifar
Michael Phelps fagnar Ólympíugullinu sínu í nótt.
Michael Phelps fagnar Ólympíugullinu sínu í nótt. Vísir/Getty
Bandaríski sundmaðurinn Michael Phelps vann í nótt sitt nítjánda gull á Ólympíuleikum þegar hann hjálpaði boðssundssveit Bandaríkjanna að vinna 4 x 100 metra skriðsund.

Michael Phelps var fyrir þessa leika sá íþróttamaður sem hefur unnið flest verðlaun á Ólympíuleikum og hann bætti það met með þessum gullverðlaunum.

Michael Phelps er orðinn 31 árs gamall en hann kom aftur inn í sundið árið 2014 eftir að hafa tilkynnt að hann væri hættur eftir Ólympíuleikana í London 2012.

Phelps synti annan sprettinn hjá bandaríska liðinu. Bandaríska liðið kom í mark á 3:09.92 mínútum en Frakkar fengu silfur og Ástralir brons.

Michael Phelps hefur nú unnið meira en tvöfalt fleiri gullverðlaun á Ólympíuleikum en þau Larisa Latynina, Paavo Nurmi, Mark Spitz og Carl Lewis sem koma öll í 2.sætinu með níu gull hvert.

Michael Phelps hefur alls unnið 23 verðlaun á Ólympíuleikum en rússneska fimleikakonan Larisa Latynina vann 18 verðlaun á árunum 1956 til 1964.

Michael Phelps er með 19 gull, 2 silfur og 2 brons á afrekaskránni. Hann vann sex gull í Aþenu 2004, átta gull í Peking 2008, fjögur gull í London og svo sitt fyrst gull í Ríó í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×