Sport

Anton Sveinn: Fann ekki kraftinn til að keyra á þetta í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson í Ríó skrifar
Anton Sveinn McKee eftir sundið.
Anton Sveinn McKee eftir sundið. Vísir/Anton
Anton Sveinn McKee var aðeins tveimur sætum og fjórtán sekúndubrotum frá því að komast í undanúrslit á Ólympíuleikunum í Ríó í kvöld.

Anton Sveinn McKee var rúmri sekúndu frá Íslandsmeti sínu en það hefði skilað honum fjórtánda sæti í undanrásunum. Anton Sveinn endaði hinsvegar í átjánda sætinu og er úr leik.

„Þetta var tæpt en svona er þetta oft," sagði Anton Sveinn McKee strax eftir sundið. Hann varð í áttunda sætinu fyrstu 150 metrana en hækkaði sig um tvö sæti á síðustu 50 metrunum.

„Ég ætlaði að koma með þá taktík að synda rólega út. Ég er sterkari á seinni partinu og ætlaði að keyra vel á hann. Það small ekki alveg hjá mér á seinustu 50 metrunum," sagði Anton Sveinn.

„Ég ætlaði þá að keyra á þetta en fann ekki alveg kraftinn í það," sagði Anton. Hann er þekktur fyrir að eiga góða endaspretti þegar hann siglir eins og eimreið í markið en hann náði henni ekki í gang í kvöld.

„Vissulega ætlaði ég mér meira en svona er þetta. Þetta fer í reynslubankann og þetta var ekki slæmt sund. Ólíkt hundrað metra sundinu þá náði ég að útfæra þetta sund eins og ég vildi," sagði Anton.

„Ég komst inn í mína taktík og leit töluvert betur út í þessu sundi. Það hefur kannski vantað eitthvað upp á en það er eitthvað sem ég fer yfir með þjálfurunum," sagði Anton.

„Ég kemst að því hvað það var og laga það fyrir næsta tímabil," sagði Anton en hann hefur nú lokið keppni á þessum Ólympíuleikum.

Rússinn ungi Anton Chupkov náði besta tímanum en hann synti á 2:07.93 mínútum eða 3.46 sekúndum hraðar en Anton Sveinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×