Körfubolti

Helena missir af næsta tímabili

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helena átti frábært tímabil með Haukum í fyrra.
Helena átti frábært tímabil með Haukum í fyrra. vísir/ernir
Landsliðsfyrirliðinn Helena Sverrisdóttir leikur ekki með Haukum á næsta tímabili þar sem hún á von á barni. Helena staðfesti þetta í samtali við mbl.is í dag.

Helena sneri aftur heim í Hauka fyrir síðasta tímabil eftir áralanga dvöl erlendis, fyrst í háskóla í Bandaríkjunum og svo í atvinnumennsku í Evrópu.

Haukar urðu deildarmeistarar á síðasta tímabili en töpuðu fyrir Snæfelli í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

Helena var með 23,1 stig, 13,2 fráköst og 7,5 stoðsendingar að meðaltali í leik í deildarkeppninni en í úrslitakeppninni skoraði hún 27,8 stig að meðaltali í leik, tók 13,6 fráköst og gaf 4,9 stoðsendingar.

Að tímabilinu loknu var Helena valin besti leikmaður Domino's deildar kvenna.

Þá spilaði hún vel með íslenska landsliðinu og átti m.a. stórleik þegar Ísland vann eftirminnilegan sigur á Ungverjum í Laugardalshöllinni.

Talsverð skörð hafa verið höggvin í lið Hauka í sumar en Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Auður Íris Ólafsdóttir eru gengnar í raðir Skallagríms.

Þess má geta að unnusti Helenu er Finnur Atli Magnússon sem leikur einnig með Haukum.


Tengdar fréttir

Nýr kafli að hefjast hjá Helenu

Fremsta körfuboltakona landsins, Helena Sverrisdóttir, sneri heim á síðsta ári eftir átta ár skólavist og atvinnumennsku erlendis.

Metleikur á öðrum fætinum

Helena Sverrisdóttir bætti stigametið um ellefu stig þegar hún leiddi Hauka til sigurs á móti Snæfelli í þriðja leik úrslitaeinvígis Domino's-deildar kvenna.

Helena með 45 stig á öðrum fætinum | Myndband

Helena Sverrisdóttir átti stórbrotinn leik í gær þegar Haukar komust í 2-1 í úrslitaeinvíginu á móti Snæfelli og það er henni að þakka að Haukaliðinu vantar aðeins einn sigur til að tryggja sér titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×