Íslenski boltinn

Guðmunda: „Þetta var bara skita hjá okkur“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Þetta var bara skita hjá okkur,“ sagði Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfyssinga, eftir 5-0 skell gegn Val á Hlíðarenda í kvöld.

„Valsliðið var betra og sterkara í öllum návígum og skoruðu þrjú mörk eftir föst leikatriði. Það er einfaldlega ekki boðlegt hjá okkur.“

Þetta var þriðja tap Selfyssinga í röð á útivelli. Í síðasta leik tapaði liðið 3-0 á Akureyri og þar áður 5-0 í Vestmannaeyjum. Það er því ekkert mark skorað og þrettán fengin á sig í síðustu þremur leikjum.

Þekktar fyrir að vera leiðinlegar

„Það vantaði alla ákveðni og greddu í okkur. Við erum þekktar fyrir að vera leiðinlegar en við höfum bara ekki verið að sýna það,“ sagði Guðmunda. En hvað skyldu þær þurfa að gera til að verða „leiðinlegar“ á nýjan leik? „Við verðum að líta inn á við, þetta í hausnum á okkur. Við verðum að koma grimmari til leiks og vinna fyrir hverja aðra.“

Fyrirliðinn var tekinn af velli í upphafi síðari hálfleiks en þá haltraði hún út af. Þetta er þriðji leikurinn í röð sem Guðmunda nær ekki að klára. „Ég hef verið meidd í hnénu og við höfum reynt að spila á því. Hingað til hefur það ekki gengið nógu vel en ég er að ná nokkrum mínútum. Ég fer í sprautu á morgun og næ vonandi næsta leik.“

Síðasta spurningin tengist fótbolta lítið og í raun ekkert. Í símaskránni hefur Guðmunda lengi verið skráð sem „pokémon meistari“. Undanfarna daga hefur leikurinn Pokémon Go tröllriðið öllu og fleiri því orðnir pokémon meistarar.

„Mér finnst geggjað að fólk er núna á mínu „leveli“. Það eru allir pokémon meistarar,“ segir fyrirliðinn og bætir við að sjálf spili hún leikinn mikið. „Ég rúnta reglulega um Selfoss í leit að pokémonum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×