Erlent

Hollande segir árásina í Nice „fyrirlitlega“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Francois Hollande.
Francois Hollande. vísir/getty
Francois Hollande Frakklandsforseti ávarpaði þjóð sína í beinni sjónvarpsútsendingu frá Nice núna eftir hádegi.

Hann sagði árásina í borginni í gær fyrirlitlega en að minnsta kosti 84 létust þegar maður keyrði vörubíl inn í mannfjölda í miðborginni þar sem fólk var samankomið vegna hátíðahalda á þjóðhátíðardegi Frakka sem var í gær. Þá eru fimmtíu manns lífshættulega slasaðir.

Hollande sagði að börn og útlendingar væru á meðal hinna látnu en Nice er mjög vinsæll ferðamannastaður. Þá var samkoman í gær mikil fjölskylduhátíð og mörg börn þar af leiðandi í miðbænum.

„Allur heimurinn horfir til okkar og sýnir okkur samstöðu. Heimurinn hugsar til okkar,“ sagði Hollande.

Hann sagði að yfirvöld rannsaki hvort maðurinn sem keyrði trukkinn í gær eigi sér vitorðsmenn sem ógn stafi af og sagði að löng barátta væri framundan fyrir Frakka.

Hollande þakkaði lögreglumönnum og öðrum sem komið hafa björgunaraðgerðum og hjálparstarfi í Nice.

„Lögreglan er stolt Frakklands,“ sagði Hollande og þakkaði einnig slökkviliðsmönnum og björgunarliði fyrir þeirra störf. Þá sagði hann að heilbrigðisstarfsfólk hefði komið til vinnu um miðja nótt til að bjarga mannslífum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×