Fótbolti

Landsliðsþjálfarinn kíkti á tennur fyrirliðans

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson í leik með FH.
Davíð Þór Viðarsson í leik með FH. vísir/vilhelm
„Þetta var jafn leikur og við komum með ákveðið skipulag í hann sem gekk þokkalega upp,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, eftir jafntefli FH gegn ÍBV í Vestmannaeyjum.

„Við komumst yfir og vorum með leikinn „undir kontról“. Það var síðan blanda af kæruleysi og óheppni hvernig þetta jöfnunarmark kom.“

Þetta var fjórða jafntefli FH í Pepsi-deildinni í sumar en í öllum tilvikum hefur liðið fengið mark á sig á lokamínútunum og misst þannig af stigum. „Það er á hreinu að við höfum tapað einhverjum átta stigum á lokamínútunum í sumar og það er eitthvað sem við verðum að stoppa.“

Síðasti leikur liðsins var einnig jafnteflisleikur en hann fór fram í Írlandi gegn Dundalk í undankeppni Meistaradeildarinnar. Að sögn fyrirliðans var ekki um neina Evrópuþreytu að ræða.

„Það er engin afsökun. Við erum vanir því að það séu margir leikir á þessum tíma árs. Við bara misstum taktinn og náðum ekki að halda boltanum eins vel og við vildum. Síðan verðum við að halda einbeitingu í níutíu mínútur og leyfa boltanum að ganga oftar en þrisvar á milli manna.“

Undir lok síðari hálfleiks fékk Davíð aðhlynningu eftir að hafa skallað saman við leikmann ÍBV. Eftir leik fékk hann landsliðsþjálfarann, Heimi Hallgrímsson, til að skoða tennurnar í sér. „Það losnuðu aðeins framtennur við höggið. Ég fer og læt kíkja á þetta. Heimir sagði þetta væri ekkert alvarlegt svo ég slepp við rótarfyllingu,“ sagði Davíð að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×