Skoðun

Hin pólitíska birtingarmynd

Ellert B. Schram skrifar
Um daginn sendi ég stutta grein til birtingar í Fréttablaðinu sem fjallaði um jafnaðarstefnuna og gildi hennar varðandi jafnan hlut og kjör, manna í milli. Minnti á kjör eldri borgara og þá hungurlús, sem þeim er ætluð til framfæris.

Svo táknrænt gerðist það að nær samdægurs birtust niðurstöður kjararáðs um launahækkanir háttsettra formanna og forstöðumanna í opinbera kerfinu. Þær nema tugum prósenta (allt upp í nær 50% hækkun) og þar að auki marga mánuði aftur fyrir sig. Flestu af þessu fólki færðar á silfurfati hundruð þúsunda króna og rúmlega það. Fyrstu viðbrögð fjármálaráðherra voru að yppa öxlum og segja að þessi vinnubrögð væru samkvæmt lögum. En nú hefur hann lagt til að fækka þeim sem njóta fyrirgreiðslu kjararáðs (einhvern tíma seinna) sem er sýnd veiði en ekki gefin. Lögin standa. Og launahækkanirnar.

En hverjir eru það sem setja lögin, nema Alþingi og stjórnmálaflokkarnir sem þar ráða ríkjum? Hverjir voru það sem höfðu ekki efni á að hækka framfærslu eldri borgara um meir en 9,6%, frá og með síðustu áramótum (ekki aftur fyrir sig) og báru fyrir sig lögin og neysluvísitöluna?

Með öðrum orðum er staðan þessi: Háttsettir ríkisforstjórar fá hækkun, (eina og sér) ofan á laun sín, á hverjum mánuði sem nemur nokkurn veginn sömu upphæð og eldra fólk fær frá almannatryggingum (ríkinu), að hámarki 190 þúsund krónur eftir skatt. Er þá ekki minnst á að ellilífeyrisþegar hafa þar að auki enga möguleika á að styrkja stöðu sína gagnvart tryggingakerfinu (og lögunum), því við hverja krónu sem fæst til viðbótar, dregst sama króna frá ellilífeyrinum. Þetta er fátæktargildran. Þetta eru lögin.

Í þessum tölum, annars vegar í launum háttsettra embættismanna og hins vegar í tryggingarkerfi eldri borgara, sjáum við birtingarmynd þeirrar misskiptingar, þeirrar mannfyrirlitningar, sem blasir við í þessu „ríka“ samfélagi okkar. Birtingarmynd mismununar á ríkum og fátækum.

Kannske er þetta skýrasta skilgreiningin og einkennið á þeim stjórnmálum og pólitískum valdhöfum sem loka augunum fyrir jafnræði og mannúð og hygla þeim efnuðu en hundsa þá fátæku. Þetta er birtingarmyndin, sem við stöndum frammi fyrir í kjörklefanum, í afstöðu okkar til flokka og baráttumála, sem íslensk pólitík snýst um. Ákvörðunin um aum kjör eldri borgara eða brjálaðar kauphækkanir háttsettra forstöðumanna er pólitík dagsins. Viljum við halda áfram að hygla þeim ríku eða auka jafnræði og samkennd með þeim sem bera skarðan hlut frá borði? Hvernig slær hjarta okkar, í hvoru liðinu viljum við vera? Eigum að vera? Væri það ekki skrítin Ella, ef þjóðin yppti öxlum eins og ráðherrann og léti það sig engu varða þegar kjör hinna ríku eru margfölduð á sama tíma og þeir efnaminni lepja dauðann úr skel?

Þetta snýst um fyrirgreiðslu annars vegar gagnvart ríka fólkinu og/eða hins vegar um virðingu og samkennd með þeim sem minna mega sín. Þetta snýst um pólitískar áherslur. Þetta snýst um hvað og hvern við kjósum og styðjum, þegar þar að kemur.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. júlí




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×