Viðskipti innlent

Tekjur Íslendinga: Meðlimir Of Monsters and Men raða sér í efstu sæti tekjuhæstu listamannanna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hljómsveitin hefur verið að gera það gott erlendis undanfarin ár.
Hljómsveitin hefur verið að gera það gott erlendis undanfarin ár. Vísir/Getty/Anton
Frjáls verslun gefur í dag út sitt árlega tekjublað og er blaðið í sölu í 13 daga. Þar eru birtar tekjur um þrjú þúsund einstaklinga víðs vegar af landinu. Þekkts fólks í þjóðlífinu, menn í atvinnulífi, listum og stjórnmálum.

Liðsmenn hljómsveitarinnar Of Monsters and Men raða sér í efstu sæti á lista Frjálsrar verslunar yfir tekjuhæstu listamenn ársins 2015. Þrír liðsmenn sveitarinnar eru í efstu fimm sætunum.

Efstur er þó Ragnar Jónasson, rithöfundur og lögfræðingur, með 2,6 milljónir á mánuði. Hann er yfirlögfræðingur fjármálafyrirtækisins GAMMA en hann er einnig höfundur Rofs, Snjóblindu og fleiri skáldsagna.

Meðlimir Of Monsters and Men raða sér í næstu tvö sæti. Gítarleikari hljómsveitarinnar, Brynjar Leifsson er með 1,77 milljónir á mánuði og fast á hæla hans kemur Ragnar Þórhallsson, söngvari og gítarleikari, með 1,73 milljónir á mánuði. Þá er söngkona og gítarleikari hljómsveitarinnarm Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, í fimmmta sæti með 1,71 milljón á mánuði.

Hljómsveitin hefur verið á miklu tónleikaferðalagi erlendis undanfarið ár en síðasta plata sveitarinnar, Beneath the skin, sem kom út á síðasta ári seldist gríðarlega vel og fór beint í þriðja sæti Billboard-listans í Bandaríkjunum.

Baltasar Kormákur leikstjóri er í fjórða sæti, mitt á milli Ragnars og Nönnu með 1,73 milljónir á mánuði. Baltasar gerði það gott á síðasta ári með stórmyndinni Everest sem fór beint á toppinn í tólf löndum skömmu eftir frumsýningu

Næst á eftir fylgja Bragi Valdimar Skúlason, hugmyndasmiður grínhópsins Baggalúts og auglýsingaskrifstofunnar Brandenburg, með rúmlega 1,5 milljónir á mánuði, Margrét Einarsdóttir búningahönnuður með rúmar 1,4 milljónir á mánuði, Sigurður Sigurjónsson leikari með 1,3 milljónir á mánuði og Ólafur Darri Ólafsson leikari með rúmlega 1,2 mlljónir á mánuði.

Listi Frjálsrar verslunar er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2015 og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann skattstjóri að hafa áætlað tekjur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×