Körfubolti

Konan með tröllatölurnar áfram með Njarðvík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carmen Tyson-Thomas lék með Keflavík í Domino´s deildinni 2014-15.
Carmen Tyson-Thomas lék með Keflavík í Domino´s deildinni 2014-15. Vísir/Vilhelm
Carmen Tyson-Thomas verður með Njarðvík í Domino´s deild kvenna næsta vetur en Njarðvík fékk óvænt sæti í deildinni fyrr í þessum mánuði þegar Hamar hætti við þátttöku í deildinni.

Carmen Tyson-Thomas hefur nú gengið frá nýjum samningi við Njarðvík en þetta kemur fram á karfan.is. Tyson-Thomas er þar með fyrsti bandaríski leikmaðurinn sem gengur opinberlega frá samningi fyrir komandi tímabil.

Þetta eru mjög góðar fréttir fyrir Njarðvíkinga enda var Carmen Tyson-Thomas mögnuð með liðinu í 1. deildinni á síðasta tímabili. Gengi liðsins með hana innanborðs var frábært og það munaði örlitlu að liðið kæmist alla leið í lokaúrslitin um sæti í Domino´s deildinni. Það skipti síðan ekki máli því Njarðvík fékk sætið á endanum.

Carmen Tyson-Thomas lék 9 leiki með liðinu og Njarðvík vann átta þeirra leikja og ennfremur þann tíma sem hún var inn á vellinum með 19,1 stigi að meðaltali í leik. Njarðvíkurkonur unnu hinsvegar aðeins 4 af 11 leikjum án hennar.

Carmen Tyson-Thomas var með sannkallaðar tröllatölur í þessum níu leikjum eða 36,1 stig, 17,8 fráköst, 5,1 stolinn bolta og 4,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Carmen Tyson-Thomas hefur spilað áður í Domino´s-deildinni en hún var með Keflavík tímabilið 2014-15 þar sem hún fór með liðinu alla leið í lokaúrslit og bikarúrslit. Tyson-Thomas var með 26,6 stig, 12,4 fráköst, 3,8 stoðsendingar og 3,5 stolna bolta að meðaltali á Íslandsmótinu það tímabil

Róbert Guðnason varaformaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur sagði við karfan.is að það væri gleðiefni að semja við Carmen þar sem hún hafi staðið sig frábærlega jafnt innan sem utan vallar og verið góð fyrirmynd. Því hafði aldrei verið spurning nema að semja við hana aftur ef tækifærið gæfist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×