Innlent

Hæstiréttur vísar frá kæru vegna forsetakosninga

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Hæstiréttur vísar til þess að kjör forseta Íslands fari fram í dag en rétturinn geti eðli máls samkvæmt ekki fjallað um gildi forsetakjörs sem ekki hefur verið lokið.
Hæstiréttur vísar til þess að kjör forseta Íslands fari fram í dag en rétturinn geti eðli máls samkvæmt ekki fjallað um gildi forsetakjörs sem ekki hefur verið lokið. vísir/gva
Hæstiréttur Íslands hefur vísað frá kæru þriggja einstaklinga vegna forsetakosninganna sem fram fara í dag.

Þeir Bjarni Bergmann, Þórólfur Dagsson og Björn Leví Gunnarsson lögðu hinn 2. júní síðastliðinn fram kæru til Hæstaréttar vegna utankjörfundarkosningar í forsetakosningunum sem fram fara í dag.

Kæran beindist nánar tiltekið að þeim hluta atkvæðagreiðslunnar sem fór fram á tímabilinu frá 30. apríl til 25. maí eða þegar innanríkisráðuneytið auglýsti hverjir væru löglegir frambjóðendur til kjörs forseta Íslands. Kæran byggist á því að það hafi ekki samræmst ákvæðum laga um framboð og kjör forseta Íslands að hefja utankjörfundaratkvæðagreiðslu áður en upplýsingar lágu fyrir um hvaða einstaklingar hefðu skilað inn löglegu framboði. Var þess því krafist í kærunni að sá hluti kosninganna sem fór fram áður en nöfn frambjóðenda lágu fyrir, yrði felldur úr gildi.

Níu dómarar Hæstaréttar vísuðu til þess í niðurstöðu að í ákvæðum laga um framboð og kjör forseta Íslands væri ekki að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar tilteknar ákvarðanir um undirbúning eða framkvæmd forsetakjörs. Heimild væri fyrir því að leita megi eftir ógildingu forsetakjörs í heild en Hæstiréttur geti ekki ógilt tilteknar ákvarðanir um slík efni eða breytt þeim, með vísan til þeirrar heimildar. Þá vísar Hæstiréttur til þess að kjör forseta Íslands fari fram í dag en rétturinn geti eðli máls samkvæmt ekki fjallað um gildi forsetakjörs sem ekki hefur verið lokið. Var kærunni því vísað frá Hæstarétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×