Innlent

Rauði krossinn á Íslandi sendir 15 milljónir króna til neyðarstarfs í Malaví

Birgir Olgeirsson skrifar
Skólastúlkur í Mangochi-héraði í Malaví, fagna glæsilegri salernisaðstöðu en engin slík var áður fyrir hendi.
Skólastúlkur í Mangochi-héraði í Malaví, fagna glæsilegri salernisaðstöðu en engin slík var áður fyrir hendi. Rauði krossinn
Rauði krossinn á Íslandi sendi í vikunni 15 milljónir króna til neyðarstarfs í Malaví. Þar af leggur utanríkisráðuneytið til níu milljónir króna. Fjármagnið verður nýtt næstu níu mánuði til þess að gefa 12.000 skólabörnum máltíðir í héruðunum Mwanza og Chikwawa. Mikill uppskerubrestur hefur verið á svæðinu sem má rekja til loftslagsbreytinga af manna völdum.

Frá ársbyrjun 2015 hefur veðrakerfið El Nino valdið miklum flóðum og þurrkum víða um sunnanverða Afríku og leitt til alvarlegs uppskerubrests víða um álfuna. Í Malaví hefur neyðarástandi verið lýst yfir og mikill fæðuskortur er yfirvofandi.

Rauði krossinn á Íslandi hefur áralanga reynslu af starfi í Malaví og hefur frá árinu 2002 tekið þátt í stórum verkefnum malavíska Rauða krossins sem miða að því að bæta heilsufar íbúa til lengri tíma, m.a. að draga úr mæðra- og ungbarnadauða, draga úr dauðsföllum af völdum malaríu, gera munaðarlausum börnum kleift að sækja skóla og bæta til lengri tíma aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×