Körfubolti

Njarðvíkurkonur upp í Dominos-deildina í miðjum júní

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Njarðvíkurliðið varð Íslandsmeistari og bikarmeistari fyrir fjórum árum en hefur nú endurheimt sæti sitt meðal þeirra bestu.
Njarðvíkurliðið varð Íslandsmeistari og bikarmeistari fyrir fjórum árum en hefur nú endurheimt sæti sitt meðal þeirra bestu. Vísir/Daníel
Njarðvík verður með tvö lið í Domino´s deildinni í körfubolta næsta vetur því KKÍ hefur tekið kvennalið félagsins upp í efstu deild.

Það eru ekki mörg körfuboltalið sem hafa unnið sér sæti í efstu deild í júní en svo varð raunin fyrir stelpurnar úr Ljónagryfjunni.

Hamar skráði ekki lið sitt til leiks næsta vetur og því var eitt laust sæti í deildinni.  Hamarsliðið var búið að missa marga lykilmenn undanfarin ár og sú þróun hélt áfram í vor.

KR tapaði í lokaúrslitum 1. deildar kvenna síðasta vetur og hefði átt að vera næsta lið inn.

Á heimasíðu KKÍ kemur fram að mótanefnd KKÍ hafi leitað til Njarðvíkur og að félagið hafi þegið sætið. Domino´s deild kvenna verður því skipuð átta liðum næsta vetur eins og reglugerð segir til um.

Njarðvíkurkonur urðu í 3. sæti í 1. deildinni síðasta vetur eftir 12 sigra í 20 leikjum. Liðið vann hinsvegar 8 af 9 leikjum sínum með Carmen Tyson-Thomas innanborðs en sá öflugi leikmaður skoraði 36,1 stig og tók 17,8 fráköst að meðaltali í leik.

Njarðvík varð tvöfaldur meistari 2012 en féll úr Dominos-deildinni tveimur árum síðar. Liðið hefur verið í 1. deild undanfarin tvö tímabil.

Liðin í Domnio´s deild kvenna 2016-17 verða því: Snæfell, Haukar, Keflavík, Valur, Grindavík, Stjarnan, Skallagrímur og Njarðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×