Innlent

Leiðin til Bessastaða: „Ekkert endilega fylgjandi því að það eigi að breyta stjórnarskránni bara til að breyta henni“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ástþór Magnússon býður sig nú fram til forseta í fjórða sinn. Nái hann kjöri nú verður hans fyrsta verk að setja sér starfsreglur um það að 10 prósent kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi og þá myndi hann ráða Sturlu Jónsson sem aðstoðarmann sinn til að leggja fram frumvarp um afnám verðtryggingar.

Ástþór er sjöundi frambjóðandinn sem kemur í forsetaviðtal Vísis og Stöðvar 2. Var öllum frambjóðendum boðið að koma í viðtal hjá Gunnari Atla Gunnarssyni fréttamanni. Í þessari viku og þeirri næstu verða viðtölin birt í heild sinni hér á Vísi en auk þess verður frétt upp úr hverju viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2. Eitt viðtal mun birtast á dag og var dregið um röðina til að gæta sanngirni.

Aðspurður hvað skoðun hann hafi á stjórnarskrárbreytingum segir hann:

„Ég tel auðvitað að það þurfi að uppfæra stjórnarskrána í nútímabúning. Það eru viss atriði sem þarf að skoða þar en ég er ekkert endilega fylgjandi því að það eigi að breyta stjórnarskránni bara til að breyta henni. Það þarf að breyta henni þannig að það sé kannski farið meira eftir henni.“

Ástþór segist telja að vandamálið í dag sé aðallega það að ekki sé farið nógu vel eftir stjórnarskránni. Þá er hann fylgjandi að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur komi inn í stjórnarskrána.

„Ég er fylgjandi beinu lýðræði. Ég hef verið fyrsti Íslendingurinn til að tala hér um beint lýðræði  en ég tala um það í bókinni Virkjum Bessastaði að við eigum að þróa okkur til beins lýðræðis,“ segir Ástþór.

Nefnir hann sem dæmi að hraðbankar gætu verið kjörklefar og hægt væri þá að halda þjóðaratkvæðagreiðslu með litlum tilkostnaði. Hann segist telja að það myndi leiða til meiri friðar og sáttar ef blásið yrði oftar til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá segir Ástþór það æskilegra að forsetinn hlusti frekar á þjóðina en sé í því að upplýsa um skoðanir sínar á einstökum málum.

Viðtalið við Ástþór má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×