Fótbolti

Heimir vonar að Aron og Kolbeinn spili á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson er allur að koma til eftir meiðsli.
Kolbeinn Sigþórsson er allur að koma til eftir meiðsli. vísir/getty
Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, er vongóður um að þeir Aron Einar Gunnarsson og Kolbeinn Sigþórsson muni koma við sögu í æfingaleiknum gegn Noregi ytra á morgun.

Báðir hafa verið að glíma við meiðsli en Aron Einar sagði á blaðamannafundi landsliðsins í Ósló í dag að honum líði vel. Kolbeinn er sömuleiðis á góðum batavegi.

„Ég vona að þeir geti eitthvað spilað á morgun. Það er langt síðan að þeir spiluðu og þetta eru einmitt leikir sem við hugsuðum fyrir þá leikmenn sem hættu að spila með félagsliðum sínum fyrir nokkru síðan,“ sagði Heimir á blaðamannafundinum.

„Við erum ánægðir með sjúkraliðið okkar og hvað það hefur gert góða hluti. Standið á leikmönnum er gott.“

Arnór Ingvi Traustason missti af síðstu leikjum sínum með Norrköping í Svíþjóð en Heimir sagði að hann hafi komið vel úr æfingunni í gær.

„Hann var með á allri æfingunni og engin slæm viðbrögð. Hann er því bara klár.“

Heimir sagði að þeir leikmenn sem hafa spilað mikið með félagsliðum sínum á Norðurlöndunum síðustu daga og vikur munu fá frí á morgun. Meðal þeirra er markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson.

Ísland skilar 23 manna lista sínum til Knattspyrnusambands Evrópu í kvöld en það verður endanlegur EM-hópur Íslands.

„Hann er í sjálfu sér opinn ennþá og verður það þangað til að við skilum honum í kvöld. Það er ekkert í stöðunni núna, nema að eitthvað gerist á æfingunni á eftir, sem fengi okkur til að breyta honum,“ sagði Heimir.

„En auðvitað voru tímapunktar í þessu ferli þar sem maður hugsaði „hvað ef?“ en sem betur fer kom ekki til þess.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×