Fótbolti

Aron Einar mun spila verkjaður á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, mun spila verkjaður á EM í Frakklandi í sumar.

Aron Einar, sem leikur með Cardiff á Englandi, hefur verið að glíma við meiðsli í ökkla síðustu vikurnar.

„Ég er með beinflís á slæmum stað. Það verður smá sársauki en það mun ekki stoppa mig. Ég mun spila með sársauka en það er spurning hversu miklum,“ sagði fyrirliðinn við Vísi í dag.

„Það er líka spurning hvort að flísin færist ekki bara á góðan stað fyrir okkur,“ bætti hann við í léttum dúr.

Hann segist þó aldrei hafa óttast að hann myndi missa af EM í sumar. „Það var aldrei nein stórhætta. Núna byrja ég bara að æfa og fer rólega af stað. Ég verð hjá sjúkraþjálfara til að koma mér inn í hlutina og stefnan er að vera kominn á fullt í lok vikunnar.“

Alls níu leikmenn úr 23 manna leikmannahópi Íslands æfðu á Laugardalsvelli í dag og Aron Einar segir það góða tilfinningu að vera kominn loksins af stað.

„Biðin hefur verið löng. Sérstaklega fyrir okkur sem kláruðu sín tímabil snemma. Ég veit að menn eru fullir tilhlökkunnar og geta hreinlega ekki beðið, rétt eins og þjóðin öll.“

Hann segir að leikmenn séu duglegir að tala saman. „Við gerum það nánast daglega. Við tölum um ýmislegt en fótboltinn er í aðalhlutverki,“ segir Aron Einar sem segir mikilvægt að undirbúningurinn fari vel af stað.

„Ég hef ekki áhyggjur af stemningunni í hópnum. Hún verður alltaf góð. Meiðslin ráðum við ekki við og það mun alltaf fylgja en vonandi ekki of mikið.“

„En það er mikilvægt að undirbúningurinn byrji vel. Ef að það tekst hjá okkur þá hef ég ekki áhyggjur af sumrinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×