Körfubolti

Varð tvöfaldur meistari með Sverri í Njarðvík og fer nú aftur til hans í Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, er hér lengst til hægri eftir að Njarðvík varð Íslandsmeistari 2012.
Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, er hér lengst til hægri eftir að Njarðvík varð Íslandsmeistari 2012. Vísir/Daníel
Kvennalið Hamars í Domino´s deildinni í körfubolta hefur orðið fyrir miklu áfall því besti leikmaður liðsins, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, hefur ákveðið að ganga til liðs við Keflavík.

Karfan.is segir frá þessum stærstu félagsskiptum sumarsins til þessa í kvennaboltanum og birti einnig stutt viðtal við hina 25 ára gömlu og 185 sentímetra háu Salbjörgu Rögnu.

Salbjörg Ragna Sævarsdóttir var með 8,5 stig, 8,2 fáköst og 2,4 varin skot í leik í Domino´s deildinni á síðasta tímabili en enginn leikmaður deildarinnar varði fleiri skot en hún. Salbjörg Ragna var efst í vörðum skotum bæði árin sín hjá Hamar en hún fór þangað eftir þriggja ára dvöl hjá Njarðvík.

Salbjörg Ragna Sævarsdóttir mun því spila aftur undir stjórn Sverris Þórs Sverrissonar, núverandi þjálfara Keflavíkurliðsins, en þau urðu tvöfaldir meistarar saman með Njarðvík keppnistímabilið 2011-12. Það leynir sér ekki að hún vildi spila aftur fyrir Sverri.

„Það voru nokkrar ástæður fyrir því að ég ákvað að fara til Keflavíkur. Ég hef áður spilað hjá Sverri og líkaði það mjög vel og mig langaði mikið til að spila aftur hjá honum, sem var aðalástæðan fyrir því að ég ákvað að spila fyrir Keflavík. Það sem heillaði mig einnig var að það er mikið af flottum ungum stelpum í Keflavík sem hafa tekið miklum framförum og ég hlakka til að æfa og spila með," sagði Salbjörg Ragna Sævarsdóttir í samtali við karfan.is.

Salbjörg Ragna lék sinn fyrsta A-landsleik í febrúar þegar Ísland vann Ungverjaland í Laugardalshöllinni en hún fékk reyndar ekki að koma inná í leiknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×