Innlent

Guðni glaður í góðum meðbyr

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. Vísir/Ernir
„Mér finnst gaman að finna meðbyr en það er enn þá löng ferð fram undan og maður heldur sínu striki og ég kynni áfram mig og mín sjónarmið og svo sjáum við hvað setur,“ segir sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson um niðurstöðu nýrrar könnunar MMR þar sem hann mælist með 65,6 prósenta fylgi.

Guðni er langhæstur þeirra sem hafa lýst yfir framboði til embættis forseta Íslands en næstur á eftir honum er ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson, sem mælist með 18 prósenta fylgi.

Andri Snær Magnason er með ellefu prósenta fylgi og Halla Tómasdóttir 2,2 prósenta fylgi. Aðrir frambjóðendur mælast með samanlagt 3 prósent.

Guðni er á reisu um Suðurnes þar sem hann ræðir við kjósendur en hann segir það vera það skemmtilegasta við framboð sitt, að hitta og spjalla við fólk. „Að heyra í öllum sem hafa áhuga á þessu embætti og hvernig því skuli gegnt. Ég vona að við höldum áfram að hafa þennan byr í seglin,“ segir Guðni.

Segja má að umræðan í kringum kosningabaráttuna hafi þyngst töluvert undanfarnar tvær vikur og kapp að færast í frambjóðendur en Guðni segist ekki eyða of mikilli orku í að hugsa um það.

„Ég einblíni á það sem ég hef fram að færa og hvar sem ég fer þá finn ég að fólk kann helst að meta þau forsetaefni sem einbeita sér að því að kynna sína sýn á embættið og því ætla ég að halda áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×