Fótbolti

Kolbeinn: Ég get verið bjartsýnn fyrir EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson í leik með Nantes í Frakklandi.
Kolbeinn Sigþórsson í leik með Nantes í Frakklandi. Vísir/AFP
Landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson segist bjartsýnn á að hann nái sér að fullu fyrir fyrsta leik Íslands á EM í Frakklandi í næsta mánuði.

Á blaðamannafundi KSÍ í gær kom fram að Kolbeinn, Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson væru allir að glíma við meiðsli en að staða Kolbeins væri hvað alvarlegust en hann er að glíma við hnémeiðsli.

„Þeir læknar og sérfræðingar sem ég hef hitt segja að líkurnar séu mjög góðar á að ég nái mér að fullu fyrir mót,“ sagði Kolbeinn við Vísi í dag.

Sjá einnig: Aron Einar, Gylfi og Kolbeinn glíma við meiðsli

„Samkvæmt myndatökum er hnéð í nokkuð góðu ásigkomulagi. Þetta eru álagsmeiðsli sem ég hef verið að glíma við allt tímabilið. Þannig að ég get verið bjartsýnn á að ég verði tilbúinn í fyrsta leik á EM.“

Kolbeinn hefur ekkert getað spilað með liði sínu, Nantes, í frönsku úrvalsdeildinni að undanförnu og hann segir að nú þurfi hann einfaldlega tíma til að jafna sig.

„Sem betur fer hef ég mánuð fram að leik. Ég er að gera allt það sem í mínu valdi stendur til að verða 100 prósent klár.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×