Enski boltinn

Tilbúnir með borðana fyrir Basel | Sjáðu hugmyndaflug Liverpool-manna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Enska liðið Liverpool er eins og flestir vita aðeins einum sigurleik frá því að komast í Meistaradeildina á ný og það er því mikil spenna í Bítlabænum sem og annars staðar.

Liverpool mætir spænska liðinu Sevilla í úrslitaleik Evrópudeildarinnar sem fram fer á St. Jakob-Park leikvanginum í Basel í Sviss. Leikurinn er á morgun, hefst klukkan 18.45 og er í beinni á Stöð 2 Sport.

Sevilla hefur unnið Evrópudeildina undanfarin tvö ár, vann 3-2 sigur á Dnipro Dnipropetrovsk frá Úkraínu í fyrra og portúgalska liðið Benfica í vítakeppni vorið 2014.

Þetta er aftur á móti tólfti úrslitaleikur Liverpool í Evrópukeppni en sá fyrsti í níu eða síðan að Liverpool tapaði fyrir AC Milan í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2007.

Liverpool hefur unnið átta af ellefu úrslitaleikjum sínum þar af alla þrjá úrslitaleiki sína í UEFA-bikarnum.

Liverpool spilaði síðast um þennan bikar vorið 2001 þegar Liverpool vann 5-4 sigur í framlengdum leik á móti spænska liðinu Alavés en sá leikur fór fram á Westfalenstadion leikvanginum í Dortmund í Þýskalandi.

Stuðningsmenn Liverpool eru búnir að bíða lengi eftir að vinna titil í Evrópu og þeir eru margir mjög spenntir fyrir leiknum í Basel og ætla að fjölmenn til Sviss.  Hluti af því að fara á leik í Evrópu er hjá mörgum stuðningsmönnum Liverpool og búa til flotta borða sem má síðan sjá út um allan leikvanginn annað kvöld.

Stuðningsmenn og aðrir með góð sambönd hafa verið að frumsýna nokkra af þessum skemmtilegu borðum á Twitter og hér fyrir neðan má sjá nokkur dæmi um borðana sem verða á pöllunum á St. Jakob-Park leikvanginum í Basel í Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×