Sport

Ferli Sharapovu gæti verið lokið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Maria Sharapova vann fimm risamót á ferlinum.
Maria Sharapova vann fimm risamót á ferlinum. vísir/getty

Ferli Rússnesku tennisdrottningarinnar Mariu Sharapovu gæti verið lokið eftir að hún féll á lyfjaprófi í byrjun árs. Þetta segir forseti rússneska tennissambandsins, Shamil Tarpishchev.

Lyfið Meldóníum fannst í þvagsýni Sharapovu á opna ástralska meistaramótinu í janúar en hún hélt stóran og mikinn blaðamannafund í mars þar sem hún tilkynnti um niðurstöður lyfjaprófsins.

Sjá einnig:Hvað er meldóníum?

Aðspurður í viðtali á rússnesku sjónvarpsstöðinni R-Sport hvort Sharapova myndi keppa aftur sagði Shamil Tarpishchev að hann efaðist stórlega um það. Hann sagði enn fremur að Sharapova væri í mjög slæmri stöðu.

Þessi 29 ára gamla tenniskona sem fimm sinnum hefur fagnað sigri á stórmóti fullyrti þegar hún viðurkenndi á sig lyfjabrotið að hún myndi snúa aftur á keppnisvöllin.

Sharapova er í tímabundnu banni sem hófst 12. mars en hún bíður eftir því að úrskurðað verði endanlega um hversu langt keppnisbann hennar verður. Sumir halda að það geti orðið fjögur ár en sérfræðingar eru frekar á því að bannið verði aðeins hálft ár eða eitt ár.

Bannið gæti verið styttra en flestir halda því Alþjóðalyfjaeftirlitið viðurkenndi í apríl að vísindamenn hafa ekki enn komist að því hversu lengi Meldóníum endist í líkamanum.

Svo gæti farið að íþróttamenn sem féllu á lyfjaprófi vegna Meldóníum fyrir 1. mars sleppi við keppnisbann á þeim grundvelli að þeir hættu að nota lyfið fyrir 1. janúar 2016 þegar Meldóníum var sett á bannlista WADA.

Sharapova hefur viðurkennt að hún tók Meldóníum löngu eftir 1. janúar en sagðist ekki hafa verið meðvituð um að það væri komið á bannlistann. Hún þekkti Meldóníum nefnilega undir öðru nafni; Mildronate.


Tengdar fréttir

Tennisstjarna í sjokki vegna fréttanna af Sharapovu

Kanadíska tennisstjarnan Eugenie Bouchard þekkir vel til Mariu Sharapovu sem var hennar átrúnaðargoð þegar hún var yngri. Sjokkið var því mikið þegar Maria Sharapova tilkynnti heiminum það í síðustu viku að hún hefði fallið á lyfjaprófi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×